Handtóku lögregluþjón í tengslum við þingárásina

Frá árásinni á þinghúsið á Capitol hæð í Washingtonborg.
Frá árásinni á þinghúsið á Capitol hæð í Washingtonborg. AFP/Roberto Schmidt

Lögregluþjónn í Washingtonborg í Bandaríkjunum sem var verðlaunaður fyrir störf sín í tengslum við árásirnar á þinghúsið í janúar 2021 hefur verið handtekinn fyrir samskipti sín við leiðtoga Proud Boys, sem meðal annars skipulögðu téða árás. CNN segir frá þessu.

Lögregluþjónninn Shane Lamond var handtekinn í gær vegna gruns um að hafa villt fyrir rannsóknarlögreglu í tengslum við samskipti sín við einn af leiðtogum Proud Boys, Enrique Tarrio. Á lögreglumaðurinn að hafa varað Tarrio við að til stæði að handtaka hann.

Alríkissaksóknari segir að Lamond hafi deilt viðkvæmum upplýsingum um rannsóknina á þingárásinni í Washingtonborg til Tario. Einnig hafi hann veitt Tario upplýsingar um rannsókn á því þegar Tarrio brendi Black Lives Matter fána í mótmælum í Washington í desember 2020.

Verjandi Lamonds segir að hann hafi þurft að vera í samskiptum við öfgahópa vegna vinnu sinnar en hafi ekki deilt skoðunum með þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert