Agnar Már Másson
Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar er harðlega gagnrýndur fyrir að hafa sóað formennskutímabili Svía í Evrópusambandinu. Jafnframt fá Ísland og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lof fyrir frumkvæði sitt að leiðtogafundinum.
Í leiðara sænska dagblaðsins Aftonbladet er farið hörðum orðum um Kristersson. Er hann gagnrýndur fyrir að hafa vanrækt störf sín og sagður hafa sóað um hálfs árs langri formennsku Svía í ESB.
Blaðið segir að þó svo að Evrópuráðið og Evrópusambandið séu ótengd hefðu Svíar getað tekið af skarið og nýtt tækifæri sitt í formannsstól ESB til þess að halda svipaðan leiðtogafund um ástandið í Úkraínu.
„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands segir að vegið sé að grunngildum Evrópu. Hún undirstrikar í opnunarræðu sinni að þessi fundur sé ekki fagnaðarerindi,“ skrifar höfundur leiðarans, Jonna Sima.
Kristersson er sömuleiðis gagnrýndur fyrir það að hafa sjálfur ekki mætt til leiðtogafundarins en Svíar sendu frekar utanríkisráðherra sinn Tobias Billström á fundinn.
Spánverjar munu taka við formennsku ESB í júlí.