Yfirvöld á Spáni segja slökkvilið og herlið hafa náð aðeins meiri stjórn á gróðureldi sem geisar í vesturhluta landsins, sem neytt hefur hundruð fólks til að flýja heimili sín í þorpum þar nærri.
Vind hefur tekið að lægja og því auðveldara að glíma við eldinn.
„Í dag vonumst við til að ná að veita eldinum högg. Þetta er mjög erfitt verk,“ segir stjórnandi almannavarna á svæðinu, Nieves Villar, í samtali við AFP-fréttaveituna.
Villar segir að mikið þurfi þó að gerast svo að stjórnvöld geti sagst hafa náð tökum á eldinum.
Íkveikju hefur verið kennt um eldinn sem braust út á miðvikudag nærri þorpinu Pinofranqueado, í strjálbyggða héraðinu Extremadura sem á landamæri að Portúgal.
Eldurinn hefur gleypt í sig um 3.500 hektara af skógi og öðru gróðurlendi. Alls hafa um 700 íbúar nokkurra þorpa þurft að yfirgefa híbýli sín.