Þegar 82% atkvæða hafa verið talin í þingkosningunum í Grikklandi er næsta víst að Nýi lýðræðisflokkurinn, flokkur Kyriakos Mitsotakis sitjandi forsætisráðherra, hefur unnið yfirburðasigur.
Flokkurinn hefur fengið 40,8% talinna atkvæða og er með yfir 20 prósentustiga forskot á Syriza, flokk áskorandans Alexis Tsipras, sem hlotið hefur 20,1% talinna atkvæða.
Haft er eftir forsætisráðherranum að íhaldsflokkur hans hafi leyst úr læðingi pólitískan jarðskjálfta með stórsigri sínum í þingkosningunum. Þá gaf Mitsotakis í skyn að hann myndi óska eftir nýjum kosningum með það að markmiði að ná hreinum meirihluta á þinginu og mynda ríkisstjórn án aðkomu annarra.
Þrátt fyrir mikinn sigur vantar íhaldinu nokkur þingsæti upp á hreinan meirihluta. Þannig stendur Mitsotakis frammi fyrir tveimur valkostum; að mynda meirihluta með aðkomu annarra eða reyna að auka fylgi flokks síns enn frekar í nýjum kosningum.
Forsætisráðherrann virðist viss í sinni sök. „Þjóðin vill sterka ríkisstjórn með sjóndeildarhring til fjögurra ára,“ sagði hann. „Pólitískur jarðskjálfti dagsins kallar á að ferlinu verði flýtt í að mynda nýja ríkisstjórn,“ bætti hann við.
Alexis Tsipras, höfuðandstæðingur Mitsotakis, undirbjó sviðið einnig fyrir nýjar kosningar. „Kosningahringnum hefur enn ekki verið lokað. Næsti bardagi verður krítískur og endanlegur.“