Telur Rússland hafa vanrækt skyldur sínar

Forsætisráðherra Armeníu á blaðamanna fundi í Jerevan.
Forsætisráðherra Armeníu á blaðamanna fundi í Jerevan. AFP/Karen Minasyan

Forsætisráðherra Armeníu, Nikol Pashinyan, greindi frá því í dag að Armenía íhugi að segja sig úr Sameiginlegu öryggismálastofnuninni (e. CSTO) vegna skorts á stuðningi frá Rússlandi.

Yfirvöld í Armeníu hafa gagnrýnt aðgerðaleysi Rússa og telja þá hafa brugðist skyldu sinni við að verja Armena fyrir hernaðarógn frá Aserbaísjan. Sagði Pashinyan ekki ólíklegt að Armenía myndi draga sig úr bandalaginu ef Rússland uppfyllti ekki bandalagsskyldur sínar. 

Pashinyan lét ummæli sín falla skömmu fyrir áætlaðan leiðtogafund ríkjanna sem haldin verður í Rússlandi en það er Vladimir Pútín Rússlandsforseti sem boðaði fundinn. 

Ágreiningur og átök

Áratugalangur ágreiningur hefur verið á milli þjóðanna en nágrannar þeirra í Georgíu, með aðstoð Evrópusambandsins, hafa leitast við að koma á friði milli ríkjanna, en þó í óþökk Rússa sem eru ekki sáttir með aðkomu Vesturlanda að málefnum Kákasusríkjanna.

Á undanförnum áratugum hafa í tvígang hafa komið upp átök á milli Armeníu og Aserbaísjan, fyrst á tíunda áratugnum og svo aftur árið 2020, vegna deilna um yfirráðasvæði Aserbaísjan. Sex vikna stríðsátök árið 2020 enduðu með vopnahléi sem varð til þess að Armenar afsöluðu sér landsvæði sem þeir höfðu stjórnað í fleiri áratugi.

„Viðræður vegna öryggisráðstafana við félaga okkar fyrir vestan hófust vegna þess að við teljum að öryggiskerfið virki ekki,“ sagði Pashinyan í dag.

Armenía hefur frá falli Sovétríkjanna reitt sig á Rússland um fjárhagslegan- og hernaðarlegan stuðning, en hefur sakað Rússland um að uppfylla ekki skyldur sínar um að tryggja frið milli ríkjanna. Á síðasta ári sökuðu yfirvöld í Armeníu Aserbaísjan um að hafa hernumið landsvæði þess og kröfðust aðstoðar Rússlands sem kom þeim ekki til aðstoðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert