Rússar kvarta yfir „órökvísri valdasýningu“

USS Gerald R. Ford er stærsta flugmóðurskip heims, 333 metra …
USS Gerald R. Ford er stærsta flugmóðurskip heims, 333 metra langt með 4.600 manna áhöfn. Það heimsækir Ósló í vikunni og verður við heræfingar með norska sjóhernum við Norður-Noreg. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bandaríska varnarmálaráðuneytið

„Engin mál í norðri krefjast hernaðarlegrar lausnar,“ skrifar Timur Tsjekanov, talsmaður rússneska sendiráðsins í Ósló, norsku fréttastofunni NTB um væntanlega heimsókn stærsta flugmóðurskips veraldar, hins bandaríska USS Gerald R. Ford, til Óslóar sem ráðgerð er nú í vikunni.

„Þegar litið er til þess að Ósló hefur viðurkennt að Rússland er engin bein hernaðarleg ógn við Noreg er valdasýning á borð við þessa órökvís og skaðleg,“ skrifar Tsjekanov enn fremur um heimsóknina.

Ferðin til Noregs er fyrsta för USS Gerald R. Ford eftir að skipið varð algjörlega starfhæft og telur áhöfn þess 4.600 manns. Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, heimsótti Gerald Ford í dag og kvað þá staðreynd, að fyrsta heimsókn Ford væri á norskt hafsvæði, bera þess vitni hve gott samstarf Noregur ætti við Bandaríkin.

Vissulega fælingarmáttur

Greg Huffman, sem hefur orð fyrir áhöfn USS Gerald R. Ford, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, að áhöfnin jafnist á við lítið bæjarfélag og þetta sé í fyrsta sinn síðan 1959 sem bandarískt flugmóðurskip heimsæki Noreg. Áhöfnin sé mjög spennt fyrir að sjá Noreg og sumir ætli sér að nota landvistarleyfi sitt til að fara og skoða meðal annars norsku firðina.

Erik Kristoffersen, æðsti yfirmaður norska hersins, forsvarssjef eins og það heitir, segir í samtali við NRK að heimsóknin sé mikilvæg. „Vissulega hefur hún fælingarmátt sýnir, svo ekki verður um villst, að við erum bandamenn, við göngum til heræfinga saman og við erum í Atlantshafsbandalaginu. Bandaríkjamenn eru meðal okkar þýðingarmestu bandamanna og við munum æfa með áhöfn flugmóðurskipsins á meðan skipið dvelur hér,“ segir Kristoffersen.

USS Gerald R. Ford við þriðju og síðustu höggbylgjuprófun sína …
USS Gerald R. Ford við þriðju og síðustu höggbylgjuprófun sína í Atlantshafi 8. ágúst 2021. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bandaríski sjóherinn/Novalee Manzella

Meðal þeirra norsku herfleyja, sem æfa munu með USS Gerald R. Ford er freigátan KNM Roald Amundsen og segir Gram varnarmálaráðherra að æfingin sendi umheiminum skýr skilaboð um að þjóðirnar leggi stund á heræfingar saman og séu þess albúnar að grípa til varna gefist tilefni til þess.

Eftir heimsóknina til Óslóar mun USS Gerald R. Ford halda til Norður-Noregs þar sem áhöfn þess mun æfa með norska hernum.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert