Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, mun ekki sæta siðferðisrannsókn vegna hraðasektar sem hún hlaut í fyrrasumar. Þetta tilkynnti Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í morgun.
Rannsóknin, sem Braverman verður ekki látin sæta, hefði getað leitt til þess að hún yrði krafin um að láta af embætti.
Sunak segist hafa leitað til siðferðisráðgjafa síns vegna málsins og komist að þeirri niðurstöðu að athæfi Braverman „brjóti ekki í bága við siðarreglur ráðherra“.
Braverman er harður stuðningsmaður Brexit og hefur verið gagnrýnd fyrir stranga afstöðu sína í málefnum innflytjenda. Hún stóð frammi fyrir mögulegri rannsókn í kjölfar þess að hafa beðið starfsmenn ríkislögreglunnar um leyfi til þess að sitja einkaökunámskeið frá þeim í stað þess að fá sektina og hljóta þar með punkta í ökuskírteinið.
Stjórnarandstæðingar ríkisstjórnarinnar héldu því fram að með því að fara fram á að óháðir ríkisstarfsmenn leggðu henni lið í persónulegum tilgangi hefði hún brotið gegn siðarreglum ráðherra.
Ályktun Sunak er sú að Bravemann þurfi ekki sæta formlegri rannsókn fyrir athæfi sitt. Sunak á þó að hafa áminnt Braveman með þeim orðum að „betur hefði mátt fara til þess að forðast að vekja upp tilfinningu um óréttlæti“.
Sunday Times greindi frá ásökununum á hendur Braveman um helgina á meðan Sunak var staddur á leiðtogafundi G7-ríkjanna í Japan. Við heimkomu sína tilkynnti hann þingmönnum að málið yrði skoðað „almennilega“ og „af fagmennsku“.
Braverman, sem hlaut á endanum sektina og punktana á skírteini sitt, hefur áður verið krafin um að láta af embætti í stjórnartíð Liz Truss, fyrrverandi forsætisráðherra. Þá var Braveman ásökuð um að hafa sent samstarfsmanni sínum opinbert skjal í gegnum einkatölvupóst.