Glíma við verstu húsnæðiskreppu í áratugi

Í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi og nágrenni hefur nýsmíði íbúða dregist …
Í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi og nágrenni hefur nýsmíði íbúða dregist saman um 68 prósent síðan í fyrra. Ljósmynd/Unsplash/Adam Gavlák

Svíar ganga nú gegnum sína verstu kreppu á íbúðamarkaði síðan á tíunda áratug síðustu aldar og hafa ekki byggt færri íbúðir síðan þá ef marka má tölfræði frá sænsku hagstofunni. Frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra og til sama fjórðungs nú í ár fækkaði nýbyggingu íbúðarhúsnæðis um 50 prósent, byrjað var á 8.300 íbúðum samanborið við 16.675 í fyrra.

„Við glímum við alvarlegan vanda og þörfnumst lausna,“ segir Andreas Carlsson, ráðherra málaflokksins, við sænsku fréttastofuna TT.

Stokkhólmur og önnur stærri byggðarlög Svíþjóðar hafa orðið sérstaklega illa úti, á Stokkhólmssvæðinu var hafist handa við byggingu 1.344 íbúða á fyrsta ársfjórðungi sem er fækkun um 68 prósent síðan í fyrra. Í Uppsölum eru tölurnar enn skelfilegri, þar nemur fækkunin 78 prósentum.

Ungt fólk berskjaldaðast

Kveður Carlsson hækkandi vexti, verðbólgu og dýra orku höfuðþættina í þessu dapra ástandi á íbúðamarkaði. Anna Broman, sérfræðingur hjá byggingasamlaginu Byggföretagen, tekur í sama streng og ráðherra og kveður ástandið illt.

„Við erum að horfa á verstu kreppu síðan á tíunda áratugnum. Nýsmíði íbúða hefur rúmlega helmingast á tveimur árum,“ segir Broman við TT.

Ungt fólk og aðrir sem eru að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuð eru að sögn hennar þeir hópar sem verst verða úti og bendir sérfræðingurinn á að árið 2021 hafi nær 70.000 íbúðir verið byggðar en tölur Byggföretagen sýna að í ár verða þær líklega ekki fleiri en 25.000.

Nágrannar Svía í Noregi glíma einnig við áskoranir er að húsnæðismálum kemur. Þar dróst sala nýrra íbúða saman um 35 prósent í apríl samtímis því sem velta á fasteignamarkaði lækkaði um 41 prósent og náði nánast sömu lægð og þegar kórónuveiran hafði sem föstust tök á heimsbyggðinni.

„Ekki kemur svo sem á óvart að sölutölur séu bágar. Við stöndum frammi fyrir mikilli óvissu, ekki síst þegar fólk er að kaupa íbúðir sem eiga að vera tilbúnar eftir tvö ár. Óvissan er gríðarleg þegar litið er til verðlags- og vaxtaþróunar,“ segir Sara Midtgaard, yfirhagfræðingur Handelsbanken í Noregi, við viðskiptamiðilinn e24.

e24

Teknisk Ukeblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert