Leitarmenn á vegum saksóknara í Þýskalandi hafa lokið leit við uppistöðulón í suðurhluta Portúgal. Leitað var að Madeleine McCann, breskri stúlku, sem hvarf á Algarve árið 2007.
Leitarflokkurinn tók niður tjöld sín síðdegis í dag. Fréttastofa Reuters greinir frá því að leitin, sem stóð yfir í þrjá daga, hafa verið tíðindalítil. Þó hafi nokkrir pokar af jarðvegi verið fluttir í burtu til rannsóknar.
Þýsk stjórnvöld hafa nafngreint mann sem sætir rannsókn vegna hvarfs McCann. Heitir hann Christian Brueckner og hafði áður verið sakfelldur fyrir barnaníð og fíkniefnasölu. Er hann nú í fangelsi í Þýskalandi, sakfelldur fyrir að nauðga 72 ára gamalli konu á Algarve.
Hefur hann neitað að vita nokkuð um mál McCann.
Alls hafa um 50 lögregluþjónar og portúgalskir slökkviliðsmenn tekið þátt í leitinni.
Portúgalskir fjölmiðlar sögðu í gær að tekin hefðu verið jarðsýni á svæðinu, auk þess sem leifar af fatnaði fundust. Enn hefur þó ekkert fundist sem tengist málinu.
Lögreglan leitaði á sama svæði árið 2008 og fundu kafarar þá eingöngu dýraleifar.