Opnaði neyðarútganginn þegar vélin var í loftinu

Hér má sjá neyðarútganginn sem var opnaður. Tjónið varð ekki …
Hér má sjá neyðarútganginn sem var opnaður. Tjónið varð ekki mikið. AFP/Yonhap

Níu voru fluttir á spítala eftir að farþegi um borð í flugvél Asiana Airlines opnaði neyðarútganginn er vélin var enn í loftinu en að koma inn til lendingar. 

Um 200 farþegar voru um borð í vélinni þegar atvikið átti sér stað en flugmönnum tókst að lenda vélinni örugglega á Daegu-flugvellinum í Suður-Kóreu. 

Þegar vélin var enn um 200 metra frá jörðu opnaði farþegi neyðarútganginn með því „að snerta stöngina,“ sagði talsmaður flugfélagsins við AFP-fréttastofuna. Var viðkomandi handtekinn og færður til yfirheyrslu hjá lögreglu til að komast að því hvers vegna hann opnaði dyrnar. 

Atvikið kom mörgum í opna skjöldu og áttu einhverjir farþegar erfitt með andardrátt. Samkvæmt miðlum í Suður-Kóreu voru níu fluttir á sjúkrahús þegar vélin lenti.

Engin alvarleg slys urðu á fólki og varð sömuleiðis ekki mikið tjón á flugvélinni, að sögn talsmanns flugfélagsins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert