Fjölskyldumeðlimir þeirra sem létust í Boeing 737 MAX-flugslysinu í Eþíópíu árið 2019 geta leitað skaðabóta vegna þeirrar tilfinningalegu vanlíðanar sem ástvinir þeirra upplifðu rétt áður en flugvélin brotlenti samkvæmt úrskurði dómara í Illinois-ríki.
Bandaríski alríkisdómarinn Jorge Alonso hafnaði á þriðjudaginn röksemdum Boeing um að ekki bæri að greiða fjölskyldumeðlimum bætur vegna þeirra tilfinninga sem farþegar kunna að hafa upplifað á meðan flugvélin hrapaði til jarðar, en tugir fjölskyldumeðlima tengdust fórnarlömbunum í flugi Ethiopian Airlines 302.
Slysið var annað af tveimur flugslysum sem tengdust 737 MAX-vélunum og fórust samtals 346 í þeim.
„Kviðdómur gæti hæglega komist að þeirri niðurstöðu, út frá sönnunargögnum sem lögð hafa verið fram við réttarhöld, að farþegar í ET 302 hafi skynjað að þeir hafi verið að hrapa ásamt því að nær öruggt væri að þau myndu láta lífið“ sagði Alonso dómari.
Boeing hefur haldið því fram að fjölskyldur fórnarlambanna eigi ekki rétt á að leita bóta þar sem fórnarlömbin hafi ekki haft neinn tíma til að þjást, þau hafi dáið samstundis.
Alonso hafnar því og segir „nægar sannanir vera til staðar til að styðja sanngjarna ályktun um að farþegarnir hafi upplifað hræðslu þegar vélin brotlenti.“ „Dómstóllinn geti ekki útilokað sönnunargögn um hugsanlegar tilfinningar fórnarlambanna og hvaða áhrif þær hafa á eftirlifandi fjölskyldumeðlimi.“
Alonso úrskurðaði því svo að eftirlifandi fjölskyldumeðlimir geti leitað skaðabóta vegna tilfinningalegs sársauka og sérstakrar vanlíðanar sem ástvinir þeirra upplifðu á síðustu augnablikum sínum.
Robert Clifford, lögmaður og fulltrúi fjölskyldna fórnarlambanna, fagnaði úrskurðinum. Hann sagði fórnarlömbin óneitanlega hafa þjáðst bæði líkamlega og andlega á meðan flugvélin hrapaði. Þá sagðist hann hlakka til komandi réttarhalda þar sem hann kemur til með að kynna sönnunargögn sem sýni að Boeing beri fulla ábyrgð á flugslysinu.