Þýska lögreglan rannsakar nú nokkra hluti í tengslum við hvarfið á bresku stúlkunni Madeleine McCann.
BBC greinir frá því að of snemmt sé til að staðfesta hvort munirnir tengist McCann sem hvarf á Algarve árið 2007, þriggja ára gömul.
Í síðustu viku stóð saksóknari á Þýskalandi að leitaraðgerð við uppistöðulón í suðurhluta Portúgal.
Þýsk stjórnvöld hafa nafngreint mann sem sætir rannsókn vegna hvarfs McCann. Christian Brueckner er 46 ára gamall Þjóðverji sem hafði áður verið sakfelldur fyrir barnaníð og fíkniefnasölu. Hann situr nú í fangelsi í Þýskalandi, sakfelldur fyrir að nauðga 72 ára gamalli konu á Algarve. Brueckner hefur neitað að vita nokkuð um mál McCann.
Christian Wolter saksóknari sagði að hlutirnir sem fundust í Portúgal yrðu rannsakaðir á næstu vikum.
„Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í leitinni. Samstarf portúgölsku, bresku og þýsku lögreglunnar hefur verið framúrskarandi og mjög uppbyggilegt,“ sagði Wolter.
Vélar, leitarhundar og hakar voru notaðir við leitina sem stóð yfir í þrjá daga.
Uppistöðulónið er 31 kílómetra frá hótelinu sem McCann hvarf frá í Praia da Luz.