3.500 milljarðar vegna fordæmalausra aðstæðna

AFP

Forsætisráðherra Japans hefur kynnt 25 milljarða dala áætlun, sem jafngildir um 3.500 milljörðum kr., sem er hugsuð til stuðnings ungu fólki og fjölskyldum til að sporna gegn hríðlækkandi fæðingartíðni í landinu. 

Barnafjölskyldur munu fá aukinn beinan fjárstuðning og þá stendur til að ríkið styðji verðandi mæður myndarlega sem og menntun barna. Þar að auki verður stuðlað að sveigjanlegri vinnutíma og lengra fæðingarorlofi. 

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, segist hafa lagt til stefnubreytingu til að takast á við lækkandi fæðingartíðni sem sé án fordæma. Ráðherrann segist enn fremur hafa kynnt leiðir til að styrkja tekjumöguleika ungs fólks og uppalenda. 

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans.
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans. AFP

„Við munu stíga skrefið fram á við með þessar aðgerðir til að takast á við lækkandi fæðingartíðni án þess að biðla til almennings að taka á sig auknar byrðar,“ sagði Kishida við ráðherra og stjórnendur í atvinnulífinu, sem komu saman til að ræða þennan vanda. 

Þó að mörg þróuð ríki standi frammi fyrir svipuðum vanda þá er staðan í Japan sérstaklega slæm. Landið er í öðru sæti á eftir Mónakó yfir elstu íbúana og auk þess er innflytjendalöggjöf landsins ströng sem þýðir að Japan stendur frammi fyrir skorti á vinnuafli. 

Alls búa 125 milljónir í Japan. Í fyrra voru skráðar fæðingar í landinu undir 800.000. Þær hafa ekki verið færri frá því mælingar hófust. Þá hefur kostnaður vegna eldri borgara aukist mikið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert