Fyrrverandi Playboy-fyrirsæta kærir Cosby

Bill Cosby hefur enn einu sinni verið ákærður fyrir kynferðisbrot.
Bill Cosby hefur enn einu sinni verið ákærður fyrir kynferðisbrot. AFP

Fyrrverandi Playboy-fyrirsætan, aðgerðasinninn og listakonan Victoria Valentino, hefur kært Bill Cosby fyrir nauðgun. Cosby var sleppt úr fangelsi árið 2021, en fleiri en 60 konur hafa sakað hann um kynferðisbrot.

Victoria, sem nú er á níræðisaldri, segir nauðgunina hafa átt sér stað árið 1969 eftir að hún snæddi kvöldverð með grínistanum. Hún segir Cosby hafa byrlað sér og vinkonu sinni lyf og farið með þær í skrifstofu í nágrenninu. Þar hafi hún síðar vaknað og Cosby brotið á henni kynferðislega.

Vonar að aðrir þolendur finni sína rödd

Í yfirlýsingu segir Valentino að áfallið sé henni enn ferskt í minni, en hún er 85 ára í dag og segir það ekki aðeins hafa haft neikvæð áhrif á sig, heldur líka afkomendur sína.

„Með því að rjúfa þögnina og segja sannleikann vona ég að það verði arfleifð mín og sýni þolendum sem enn eiga eftir að finna sína rödd að það er hægt að finna von og sátt, “ segir Valentino.

Sleppt úr fangelsi árið 2021

Cosby var sleppt úr fangelsi árið 2021 eftir að dómstólar í Bandaríkjunum ógiltu dóm yfir honum en hann var upprunalega dæmdur fyr­ir að byrla fyrir konu og beita hana kyn­ferðisof­beldi árið 2006.

60 konur kærðu Cosby á sínum tíma en aðeins eitt mál var tekið fyrir, vegna fyrningarfrests sem gildir um kynferðisbrot í flestum ríkjum í Bandaríkjunum. 

Áður dæmdur fyrir brot í Playboy-setrinu

Tímabundin lög tóku hins vegar við í Kaliforníuríki nýlega og fjarlægðu þar með ákvæði um fyrningarfrest í kynferðisbrotamálum. Valentino hefur kært Cosby fyrir dómstól í Kaliforníu og er því ekki ólíklegt að málið verði tekið fyrir dóm. 

Cosby var síðast dæmdur til að greiða konu miskabætur í fyrra, en málið fór fyrir dómstól í Kaliforníu.

Var Cosby dæmdur að greiða konunni 500 þúsund dali í skaðabæt­ur, eða um 66 millj­ón­ir króna, fyrir brot gegn henni í Playboy-setrinu árið 1975, þegar hún var 15 ára gömul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert