Vill ganga frá aðild Svía sem fyrst

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti funduðu …
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti funduðu í Istanbúl í dag. AFP/Forsetaembætti Tyrklands

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins NATO, hvatti í dag Tyrki til að falla frá andstöðu sinni við aðild Svíþjóðar að bandalaginu. Hann sagðist vona að gengið yrði frá aðild Svía „eins fljótt og auðið er“.

Aukinn þrýstingur hefur verið á Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta til að gefa grænt ljós á aðild Svíþjóðar að NATO fyrir fund bandalagsins sem haldinn verður í Vilníus í Litháen í júlí.

Muni styrkja NATO og Tyrkland

„Aðild mun auka öryggi Svíþjóðar en einnig styrkja NATO og Tyrkland,“ sagði Stoltenberg eftir fund sinn með Erdogan og Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands, í Istanbúl.

„Ég hlakka til að ganga frá aðild Svíþjóðar eins fljótt og auðið er,“ bætti hann við.

Tyrkland og Ungverjaland eru einu NATO-ríkin sem enn hafa ekki staðfest tilboð Svía um aðild að bandalaginu. Finnland fékk inngöngu í NATO í apríl.

Telur Stoltenberg að Svíþjóð hafi uppfyllt allar skyldur umsóknarríkis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert