Stríð milli ríkjanna yrði „óbærilegt stórslys“

Li Shangfu, varnarmálaráðherra Kína, skömmu áður en hann ávarpaði öryggisráðstefnuna.
Li Shangfu, varnarmálaráðherra Kína, skömmu áður en hann ávarpaði öryggisráðstefnuna. AFP/Roslan Rahman

Stríð milli Kína og Bandaríkjanna yrði „óbærilegt stórslys“ fyrir heiminn. 

Þetta kom fram í máli Li Shangfu, varnarmálaráðherra Kína, á öryggisráðstefnu í Singapúr þar sem hann tjáði sig m.a. um vopnakapphlaup í Asíu sem hann sagði „sum ríki“ vera að ýta undir.

Þá taldi hann mikilvægt fyrir stjórnvöld í Kína og Bandaríkjunum að sættast. Heimurinn væru nógu stór fyrir bæði stórveldin.

BBC greinir frá. 

Þurftu að hægja á sér

Bandaríski sjóherinn sagði kínverskt herskip hafa siglt nálægt bandarískum tundurspilli á laugardaginn við strendur Taívan, með þeim afleiðingum að hægja þurfti verulega á ferð skipsins til að koma í veg fyrir árekstur.

Kanadískt skip var einnig á siglingu á svipuðum slóðum þegar atvikið átti sér stað.

Kínversk stjórnvöld hafa gagnrýnt bæði ríkin fyrir að „skapa viljandi hættu“.

Stjórnvöld í Kanada og Bandaríkjunum segjast ekki hafa brotið í bága við alþjóðleg lög og að skipunum hafi verið heimilt að sigla á þessum svæðum.

Í ræðu sinni sakaði Li, sem tók við embætti varnarmálaráðherra í mars, Bandaríkjamenn um að viðhafa „Kaldastríðshugarfar“ og sagði hann það ýta undir „öryggishættu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert