Myndir: New York hulin reyk frá skógareldum

Biðlað hefur verið til íbúa að halda sig innandyra.
Biðlað hefur verið til íbúa að halda sig innandyra. AFP

Appelsínugul þoka sem minnir á eitthvað úr kvikmynd um heimsendi hylur nú New York-borg í Bandaríkjunum en mikill reykur sem stafar frá skógareldum í Kanada liggur yfir borginni.

Tug­ir millj­óna manna í Norður-Am­er­íku voru varaðir við heilsu­spill­andi lofti fyrr í dag vegna skógareldanna en mikill reykur berst frá stórum svæðum í kanadísku héruðunum Ontario og Quebec.

Hvetur fólk til að halda sig innandyra

Svo virðist vera sem að skógareldarnir í Kanada verði þeir verstu frá upphafi mælinga þar í landi en tuttugu þúsund manns hafa flúið heimili sín.

Eric Adams, borgarstjóri New York, hefur hvatt íbúa til að halda sig innandyra til að forðast mengunina frá þokunni. Þá hefur ýmsum flugferðum og íþróttaviðburðum verið frestað. 

Reykurinn frá skógareldunum berst víða og hefur mælst í hundrað mílna fjarlægð frá upptökunum. Íbúar í New York hafa kvartað undan kláða í augum, eymslum í hálsi og að það lykti eins og einhver sé að grilla í borginni.

Verstu loftgæði í heiminum

Hugh Hill, 43 ára lögmaður, sagði í samtali við fréttaveitu AP að hann myndi nota andlitsgrímu á meðan hann færi í göngu með hundinn sinn þó að óvíst væri hvort það gerði nokkurt gagn.

„Ég veit að gríman gerir eitthvert gagn. Augljóslega kemur það ekki í veg fyrir allt en það þarf einhver að labba með hundinn.“

Samkvæmt IQAir.com, sem mælir loftægði um allan heim, eru loftgæðin í New York þau verstu miðað við allar stórborgir í heiminum eins og stendur.

Íbúar nýta tækifærið til að gera gys á Twitter

Íbúar New York hafa fjölsótt á Twitter til að tjá sig um sjónarspilið og mengunina. Hér fyrir neðan er meðal annars hægt að sjá hvernig ásýnd New York hefur breyst á nokkrum klukkutímum.


Þá eru aðrir sem líkja ástandinu í New York við kvikmyndina Blade Runner 2049 sem kom út árið 2017 eða reyna sjá skoplegu hliðina á menguninni.

Hér fyrir neðan má berja mengunina augum.

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert