Mímir Kristjánsson, þingmaður Rauða flokksins í norska Stórþinginu, missti föður sinn, Kristján Loftsson Guðlaugsson, á sunnudag.
„Pabbi var háskólinn minn. Fjórum sinnum á dag gengum við saman með hundinn og hann sagði mér allt sem er þess virði að vita um heiminn,“ skrifar Mímir um föður sinn í Facebook-færslu.
Kristján var 74 ára gamall og lést í bænum Torremolinos á Spáni, þar sem hann bjó. Hann starfaði meðal annars sem blaðamaður og ritstjóri Rogalands Avis. Norski miðillinn Dagsavisen greinir frá.
Mímir skrifar um að faðir hans hafi sagt honum ýmsar sögur.
„Þar að auki sagði hann mér fullt af hlutum sem líklega voru ekki sannir, en pabbi var ekki norskur og hann vann heldur ekki á faktisk.no. Skáldaleyfi kalla Íslendingar það. Leyfi til að ljúga svo framarlega sem þú gerir það til að bæta söguna en ekki í eigin þágu.
Faðir minn var slæmur í mörgu, en eitt sem hann var góður í var að heilla heiminn. Pabbi var í orðsins bestu merkingu takmarkalaus,“ skrifar Mímir.
„Nú er enginn lengur sem ég get hringt í og beðið um hjálp eða fyrirgefningu. Ég get bara vonað að ég geti gert jafnmikið fyrir börnin mín og þú gerðir fyrir mig. Þú varst góður vinur, ég sakna þín.“