Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur verið ákærður í 37 liðum vegna hundraða leyniskjala sem hann hafði vörslu þrátt fyrir að kjörtímabili hans væri lokið. Skjölin varða meðal annars kjarnorkumál og varnarmál.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að þegar forsetinn lauk kjörtímabili sínu árið 2021 hafi hann tekið með sér fjölda háleynilegra skjala, meðal annars frá Pentagon og leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna.
Að því er segir í ákærunni geymdi Trump skjölin í húsi sínu í Mar-a-Lago í Flórída-ríki, en þar er einnig gististaður, þar sem Trump hefur haldið margar fjöldasamkomur með tugum þúsunda gesta.
Í ákærunni segir að hann hafi að minnsta kosti tvisvar sýnt skjöl sem varða hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna einstaklingum sem höfðu enga heimild til þess að sjá þau.
Þar kemur fram að Trump hafi tekið skjöl sem innihéldu upplýsingar er varða varnarmál, vopnamál Bandaríkjanna og annarra landa, kjarnorkumál Bandaríkjanna, hugsanlega veika hlekki í varnarmálum landsins og bandamanna þess og áform um möguleg viðbrögð í tengslum við árás á landið.
„Óheimil afhjúpun þessara leyniskjala gæti stefnt þjóðaröryggi Bandaríkjanna í hættu,“ segir í ákærunni.
Trump er því ákærður í 37 liðum fyrir að halda gögnum í sínum vörslum af ásetningi og gæti hann þurft að sæta allt að 20 ára fangelsisvist verði hann fundinn sekur.
Walt Nauta, aðstoðarmaður Trumps, var einnig ákærður í sex liðum fyrir að aðstoða Trumpvið að fela skjölin.
Joe Biden Bandaríkjaforseti segist ekki hafa átt í neinum samskiptum við Merrick Garland dómsmálaráðherra hvað varðar ákæruna á hendur Trump.
„Ég hef ekkert rætt við hann og ég mun ekki ræða við hann. Og ég hef ekkert að segja um þetta [mál],“ sagði forsetinn við blaðamenn í dag, og ítrekaði að Hvíta húsið hafi ekki haft neitt að gera með dómsmál Trumps.