Gögn úr jarðskjálftamælum í Rúmeníu gefa til kynna að sprenging hafi orðið í grennd við Kakhovka-stífluna í Úkraínu áður en stíflan brast. Eru þessi gögn talin styrkja þá tilgátu að Rússar beri ábyrgð á sprengingu í stíflunni.
Jarðskjálftafræðingar norsku jarðhræringamiðstöðvarinnar Norsar, hafa rýnt í gögnin og segja þau gefa til kynna að sprenging hafi orðið klukkan 2.54 að staðartíma á þriðjudag, um það leyti sem stíflan brast. BBC greinir frá.
Úkraínsku öryggissveitirnar, SBU, telja sig einnig hafa fundið sönnun á því að Rússar hafi sprengt stífluna. Þeirra sönnunargagn er upptaka af símtali, sem SBU telur vera á milli tveggja rússneskra hermanna, þar sem þeir ræða um að Rússar beri ábyrgð á sprengingunni.
Erlendum fjölmiðlum hefur ekki tekist að staðfesta grunsemdir Úkraínumanna. Er annar hermannanna sagður hafa talað um í símtalinu að sprengingin hafi orðið stærri en Rússar áttu von á.
Úkraínsk stjórnvöld segjast viss í sinni sök að Rússar beri ábyrgð á sprengingunni. Rússar hafa sakað Úkraínumenn um að sprengja sjálfir upp stífluna.
Sprengingin hefur haft gríðarleg áhrif á íbúa í Úkraínu. Sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, nú í morgun að yfir 40 bæir og borgir hafi orðið fyrir áhrifum.
Þúsundir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna sprengingarinnar og er fjöldi án neysluvatns í Kerson-héraði.