„Það má ekki verðlauna þessa glæpamenn“

Trump hélt þessa ræðu á einni samkomu Repúblikana í kvöld …
Trump hélt þessa ræðu á einni samkomu Repúblikana í kvöld og er nú á leið til þeirrar næstu. AFP

„Þeir eru að svindla, þeir eru brögðóttir, þeir eru spilltir. Það má ekki verðlauna þessa glæpamenn, það þarf að sigra þá.“

Þetta var það sem Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hafði að segja þegar hann kom fram opinberlega í kvöld, í fyrsta skipti eftir að ákæra var gefin út á hendur honum í 37 liðum vegna hundraða leyniskjala sem hann hafði í vörslum sínum eftir að kjörtímabili hans var lokið. Skjölin varða meðal annars kjarnorkumál og varnarmál.  

Trump kallaði ákæruna blekkingu af hálfu spilltrar pólitískrar einingar sem væri bæði í senn brandari og svik.

Stemmning hefur verið að byggjast upp fyrir forsetakosningunum sem fara fram á næsta ári. Trump hefur verið ötull í kosningabaráttu sinni, þar sem hann berst fyrir stöðu sinni sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins. 

Í kvöld hélt hann ræðu á samkomu Repúblikana í Columbus í Georgíu og er nú á leið á aðra eins samkomu í Greensboro í Norður Karólínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert