Lögfræðingur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, gefur í skyn að skjöl þau sem Trump er ákærður fyrir að hafa haft með höndum, eftir að forsetatíð hans lauk, séu ekki lengur leynileg og hafi í einhverjum tilfellum verið tekin sem minjagripir.
Talið er að hægt sé að lesa úr orðum lögfræðingsins hvernig vörn forsetans fyrrverandi verður byggð upp í þessu máli.
Donald Trump á að koma fyrir alríkisdómstól í Miami á þriðjudaginn og verða honum þar birtar kærur í 37 liðum. Kærurnar fela í sér brot á njósnalögum og fyrir að hafa sagt ósatt, þegar hann var spurður um meðferð leyniskjala.
Alina Habba, ein lögfræðinga Tumps, segir að hann muni aldrei sættast á neins konar málamiðlun í réttahöldunum fram undan enda hefði hann ekkert gert af sér.
Trump sækist enn eftir því að verða forsetaefni Repúblíkanaflokksins og halda verjendur hans því fram að ákærurnar og húsleit á býli forsetans í Mar-a-Lago séu pólitískar ofsóknir.
Fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Bill Barr, hafnar þeim ásökunum og segir: „Það er algerlega fáránlegt að forseti hafi fullt vald til þess að ákveða einn síns liðs að eitthvert skjal sé persónulegs eðlis“. Má ætla að deilt verði í réttarhöldunum um það hversu langt vald forseta nær í því að aflétta leynd á tilteknum skjölum.