Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, hefur verið handtekin í tengslum við rannsókn sem stendur yfir á fjármögnun og fjármálum Skoska þjóðarflokksins (SNP).
BBC greinir frá því að lögreglan hafi staðfest að 52 ára kona hefði verið handtekin í dag og sé í yfirheyrslu.
Þann 5. apríl gerðu lögreglumenn húsleit á heimili Sturgeon og í höfuðstöðvum flokksins í Edinborg.
Á þeim tíma var eiginmaður Sturgeon og fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, Peter Murrell, handtekinn en síðar látinn laus.
Sturgeon sagði af sér sem forsætisráðherra í febrúar.