Nicola Sturgeon laus úr haldi

Sturgeon fyrir utan heimili sitt í Glasgow þann 20. apríl.
Sturgeon fyrir utan heimili sitt í Glasgow þann 20. apríl. AFP/Andy Buchanan

Nicolu Stur­geon, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra skosku heima­stjórn­ar­inn­ar, hefur verið sleppt úr varðhaldi. Hún var handtekin í morgun í tengslum við rannsókn sem stendur yfir á fjármálum Skoska þjóðarflokksins (SNP).

Fram kemur að henni hafi verið sleppt, en að rannsókn málsins haldi áfram. Hermt er að hún hafi farið sjálfviljug á lögreglustöð til yfirheyrslu. Í yfirlýsingu sem hún gaf frá sér eftir að hafa verið látin laus segist  hún vera miður sín yfir handtökunni. „Ég veit að það er hafið yfir allan vafa að ég er saklaus af hvers kyns misgjörðum.“

Aðgerðir bresku lögreglunnar miða að því að komast til botns í því hvort Skoski þjóðarflokkurinn hafi misnotað fjárframlög. Framlögin hafði flokknum áskotnast sem innlegg í baráttu nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Rannsókn ekki lokið

Eiginmaður Sturgeon, Peter Murrell, sem var framkvæmdastjóri flokksins, hafði áður verið handtekinn 5. apríl. Var hann yfirheyrður samfleytt í tólf tíma en síðan sleppt án ákæru.

The Guardian hefur eftir skosku lögreglunni að vitnisburður Sturgeon verði notaður í skýrslugerð sem send verður áfram til skattrannsóknarstjóra. Lögreglan vildi ekki tjá sig frekar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert