Yfir 20 skotum hleypt af

Lögregla á vettvangi í gær.
Lögregla á vettvangi í gær. AFP/Anders Wiklund

Lögreglan í Stokkhólmi kveðst hafa glögga mynd af atburðarásinni þegar fjögur voru skotin í hverfinu Farsta í gær, þökk sé fjölda vitna og myndefnis af vettvangi.

Árásarmennirnir eru sagðir hafa hleypt af meira en 20 skotum, að því er sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá. Tveir menn um tvítugt voru handteknir í nótt.

„Þeir eru nú í haldi, handteknir og búist er við að þeir verði áfram í haldi á næstunni,“ sagði lögreglustjórinn Max Åkerwall á blaðamannafundi í dag.

Drengirnir hafi verið skotmörkin

Árásin átti sér stað við neðanjarðarlestarstöð. Fimmtán ára drengur lést samstundis, en annar fimmtán ára drengur, kona og maður voru flutt á sjúkrahús. Þau eru ekki talin vera í lífshættu.

SVT hefur eftir heimildum að lögreglan rannsaki málið svo að drengirnir tveir hafi verið skotmörkin. Hin tvö hafi þar af leiðandi ekki verið skotmörk.

„Við erum að rannsaka hvernig hinir handteknu tengjast árásinni, en við getum ekkert gefið upp um að hverju við höfum komist,“ sagði Ola Österling, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert