450 starfsmönnum sagt upp á Karólínska

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð.
Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, þar sem Björn Zoëga er forstjóri, tilkynnti í dag um uppsagnir 450 starfsmanna. Það jafngildir 2,8 prósentum af heildarfjölda starfsmanna þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sjúkrahússins.

Eftir fyrstu fjóra mánuði ársins tilkynnti Karólínska um 400 milljóna sænskra króna halla, sem jafngildir rúmlega fimm milljörðum íslenskra króna. Stafar hallinn fyrst og fremst af verðbólgu sem keyrir upp lífeyriskostnað spítalans.

Árið 2022 var afgangur af rekstri sjúkrahússins um það bil 18 milljónir sænskra króna.

„Þegar við sjáum að efnahagslífið fer versnandi verðum við að bregðast hratt við og af nákvæmni. Uppsögn er ekki auðveld ákvörðun þar sem hún hefur áhrif á marga starfsmenn og fjölskyldur þeirra,“ er haft eftir Birni Zoëga, forstjóra sjúkrahússins.

Hjá sjúkrahúsinu starfa 15.800 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert