Engum á gólfinu sagt upp

Björn Zöega, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð.
Björn Zöega, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð. mbl.is

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð, segir að uppsagnir 450 starfsmanna sjúkrahússins komi ekki til með að hafa áhrif á þjónustu við sjúklinga. Hann segir tvær ástæður liggja að baki uppsögnunum.

„Við erum að segja upp 450 manns sem vinna við skrifstofustörf eða styðjandi störf við lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og aðra sem vinna með sjúklingana.

Önnur ástæðan er sú að við höfum ekki nógu mikið fjármagn til þess að hafa þetta fólk sem hefur aðeins aukist núna á síðustu árum í kringum covid og eftir það. Hin ástæðan er sú að við þurfum að bæta okkur í stafrænni þróun og gera fleiri af þessum störfum stafræn. Þannig getum við þróað okkur áfram og hugað að framtíðinni,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Þriggja mánaða undirbúningur

Fólki á gólfinu innan sjúkrahússins var þar af leiðandi ekki sagt upp. Unnið hefur verið að undirbúningi uppsagnanna undanfarna þrjá mánuði.

„Þegar við fórum að sjá það að fjármögnun hjá okkur dugði ekki fyrir þessu starfsfólki. Vegna verðbólgunnar hafa lífeyrisskuldbindingar á sjúkrahúsinu hækkað um 700 milljónir sænskra króna umfram það sem við höfum fengið fjármagn af, þannig að við þurftum að glíma við þann halla,“ segir Björn.

Hann segir yfirmenn sjúkrahússins hafa það að leiðarljósi að uppsagnirnar eigi ekki að hafa áhrif á sjúklinga.

„Þá erum við að gera eitthvað vitlaust. Við ætlum að sjá til þess að starfsemi gagnvart sjúklingum verði ekki skert.“

Áhrifin taka upp í heilt ár

Hjá sjúkra­hús­inu starfa 15.800 manns og eru um það bil 1.170 rúm í notkun á venjulegum virkum degi.

Spurður hver séu næstu skref, svarar Björn:

„Við svona hópuppsögn hérna í Svíþjóð, þá tekur núna við sex mánaða tími þar sem samið er við verkalýðsfélögin og einstaklingana sem lenda í þessu og eftir það er hægt að byrja að segja fólki raunverulega upp, þannig að áhrifin af þessu taka alveg upp í heilt ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert