Ash Regan, fyrrverandi ráðherra skosku ríkisstjórnarinnar, kallar eftir „róttækum aðgerðum” til að bregðast við handtöku Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, í gær. Þetta hefur BBC eftir Regan.
Regan vill að Humza Yousaf, núverandi forsætisráðherra og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, íhugi það að víkja Sturgeon úr flokknum, neiti hún að segja sig sjálf úr honum.
Sturgeon, sem sagði af sér sem forsætisráðherra í febrúar, segist vera saklaus af misgjörðum og talsmaður Skoska þjóðarflokksins segir flokkinn sýna fulla samvinnu í rannsókninni.
Sturgeon var sleppt úr varðhaldi í gær án ákæru, en hún var handtekin vegna rannsóknar á fjármálum Skoska þjóðarflokksins (SNP).
Lögreglan hafði heimild til allt að 12 klukkustunda yfirheyrslu áður en taka þurfti ákvörðun um hvort gefa ætti út ákæru á hendur henni eða ekki.