Sagður hafa íhugað að ráðast á leikskóla

Fólk minnist fórnarlambanna fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's. Mynd úr safni.
Fólk minnist fórnarlambanna fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's. Mynd úr safni. AFP

Réttarhöld vegna skotárásarinnar sem framin var í verslunarmiðstöðinni Field’s í Kaupmannahöfn þann 3. júlí 2022 eru nú hafin. 23 ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir morð og tilraun til manndráps vegna málsins. Hin ýmsu skrif fundust hjá manninum sem sögð eru minnast á aðrar frægar skotárásir og að hann hafi tilkynnt lækni sínum að hann sæi sjálfan sig sem „fjöldamorðingja“.

Þrjú voru skotin til bana og fjórir særðust alvarlega í árásinni sem stóð yfir í um þrettán mínútur.  Þau sem lét­ust voru 17 ára dansk­ur pilt­ur, 17 ára dönsk stúlka og 47 ára maður með rúss­nesk­an rík­is­borg­ara­rétt sem var bú­sett­ur í Dan­mörku. 

Sá ákærði hefur setið inni á lokaðri geðdeild síðan hann var dæmdur í gæsluvarðhald þann 4. júlí 2022.

DR greinir frá því að maðurinn sé sakaður um að hafa gert tilraun til þess að myrða ellefu til viðbótar við þá þrjá sem létust. Þá séu 23 fórnarlömb í málinu og 20 til viðbótar sem hann á að hafa skotið í áttina að.

Snúist ekki um hvort hann hafi framkvæmt verknaðinn

Í beinni lýsingu DR frá réttarhöldunum kemur fram að málið fari fram fyrir framan þrjá dómara. Þá muni myndbönd af verknaðinum vera sýnd fyrir luktum dyrum og allir gestir í réttarsal beðnir um að yfirgefa salinn á meðan á því stendur. Þá hafi manninum verið leyft að vera ekki viðstaddur réttarhöld dagsins eftir hádegishlé. 

Maðurinn hefur neitað sök í málinu á grundvelli andlegra veikinda en haft er eftir verjanda hans, þar sem hún segir málið ekki snúast um það hvort að maðurinn hafi framkvæmt verknaðinn. Hún haldi því fram að maðurinn sé undanskilinn refsingu vegna veikinda en hann eigi erfitt með að muna hvað hafi gerst þennan dag. Þá muni hann ekki gefa framburð fyrir rétti.

Sá ákærði á að hafa komið inn í verslunarmiðstöðina klukkan 16.58 á dönskum tíma þann 3. júlí, skipt um föt á baðherbergi í miðstöðinni og tekið skotvopn upp en hann hafi dvalið á baðherberginu í 33 mínútur. Sextán þeirra hafi hann eytt í bið í símanum við neyðarlínu geðhjálpar. Enginn hafi svarað þar sem að sumarfrí hafi staðið yfir og maðurinn verið settur í biðröð fyrir mistök. Þá hafi tvö þeirra þriggja sem létust í árásinni verið skotin til bana stuttu eftir að hann skellti á.

Handskrifaðir miðar sem minntust á frægar skotárásir

Saksóknari veltir upp því sem að fannst í fórum mannsins eða á heimili hans en til dæmis má nefna byssuskot og handskrifaða miða. Á miðunum á að standa Sandy Hook“ og „Culumbine“ ásamt nöfnum á YouTube rásum en í daglegu tali er minnst á Sandy Hook og Columbine sem mannskæðar skotárásir í Bandaríkjunum.

Í Sandy Hook árásinni, sem framin var árið 2012 á leikskóla, létust 26 og voru 20 börn skotin til bana. Í Columbine voru 15 nemendur í Columbine High School skotin til bana.

Hafi séð sig sem fjöldamorðingja 

Þá er einnig farið yfir hin ýmsu skrif sem eiga að hafa fundist hjá hinum ákærða, þar á meðal vikuna áður en að árásin var framin.

Í skrifunum segist maðurinn til dæmis hafa sagt lækni sínum frá því að hann væri fjöldamorðingi.

„Ég sagði lækninum mínum fyrir viku síðan að ég sjái sjálfan mig sem fjöldamorðingja. Ég hélt að lögreglan myndi koma að sækja mig“.

Meðvitaður um fólk sem þykist vera dautt

Þá kemur einnig fram að maðurinn hafi skrifað hjá sér að hann þyrfti að vera meðvitaður um fólk sem myndi þykjast vera dautt og fá það til að bregðast við. Einnig er greint frá því að hann hafi íhugað að fremja árás á leikskóla.

Myndband af hinum ákærða að tala fyrir framan vefmyndavél áður en að árásin var framin var sýnt í réttarsalnum.

Fram kemur að maðurinn hafi sakað fólk um að niðurlægja sig og hundsa og að kerfið sé of vanhæft til þess að stöðva sig. Hann hafi varað fólk við en ekki fengið meðhöndlun.  

„Ég er eins og manneskja án andlits. Ég hef engu að tapa,“ er haft eftir manninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka