Sagður hafa íhugað að ráðast á leikskóla

Fólk minnist fórnarlambanna fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's. Mynd úr safni.
Fólk minnist fórnarlambanna fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's. Mynd úr safni. AFP

Rétt­ar­höld vegna skotárás­ar­inn­ar sem fram­in var í versl­un­ar­miðstöðinni Field’s í Kaup­manna­höfn þann 3. júlí 2022 eru nú haf­in. 23 ára karl­maður hef­ur verið ákærður fyr­ir morð og til­raun til mann­dráps vegna máls­ins. Hin ýmsu skrif fund­ust hjá mann­in­um sem sögð eru minn­ast á aðrar fræg­ar skotárás­ir og að hann hafi til­kynnt lækni sín­um að hann sæi sjálf­an sig sem „fjölda­morðingja“.

Þrjú voru skot­in til bana og fjór­ir særðust al­var­lega í árás­inni sem stóð yfir í um þrett­án mín­út­ur.  Þau sem lét­ust voru 17 ára dansk­ur pilt­ur, 17 ára dönsk stúlka og 47 ára maður með rúss­nesk­an rík­is­borg­ara­rétt sem var bú­sett­ur í Dan­mörku. 

Sá ákærði hef­ur setið inni á lokaðri geðdeild síðan hann var dæmd­ur í gæslu­v­arðhald þann 4. júlí 2022.

DR grein­ir frá því að maður­inn sé sakaður um að hafa gert til­raun til þess að myrða ell­efu til viðbót­ar við þá þrjá sem lét­ust. Þá séu 23 fórn­ar­lömb í mál­inu og 20 til viðbót­ar sem hann á að hafa skotið í átt­ina að.

Snú­ist ekki um hvort hann hafi fram­kvæmt verknaðinn

Í beinni lýs­ingu DR frá rétt­ar­höld­un­um kem­ur fram að málið fari fram fyr­ir fram­an þrjá dóm­ara. Þá muni mynd­bönd af verknaðinum vera sýnd fyr­ir lukt­um dyr­um og all­ir gest­ir í rétt­ar­sal beðnir um að yf­ir­gefa sal­inn á meðan á því stend­ur. Þá hafi mann­in­um verið leyft að vera ekki viðstadd­ur rétt­ar­höld dags­ins eft­ir há­deg­is­hlé. 

Maður­inn hef­ur neitað sök í mál­inu á grund­velli and­legra veik­inda en haft er eft­ir verj­anda hans, þar sem hún seg­ir málið ekki snú­ast um það hvort að maður­inn hafi fram­kvæmt verknaðinn. Hún haldi því fram að maður­inn sé und­an­skil­inn refs­ingu vegna veik­inda en hann eigi erfitt með að muna hvað hafi gerst þenn­an dag. Þá muni hann ekki gefa framb­urð fyr­ir rétti.

Sá ákærði á að hafa komið inn í versl­un­ar­miðstöðina klukk­an 16.58 á dönsk­um tíma þann 3. júlí, skipt um föt á baðher­bergi í miðstöðinni og tekið skot­vopn upp en hann hafi dvalið á baðher­berg­inu í 33 mín­út­ur. Sex­tán þeirra hafi hann eytt í bið í sím­an­um við neyðarlínu geðhjálp­ar. Eng­inn hafi svarað þar sem að sum­ar­frí hafi staðið yfir og maður­inn verið sett­ur í biðröð fyr­ir mis­tök. Þá hafi tvö þeirra þriggja sem lét­ust í árás­inni verið skot­in til bana stuttu eft­ir að hann skellti á.

Handskrifaðir miðar sem minnt­ust á fræg­ar skotárás­ir

Sak­sókn­ari velt­ir upp því sem að fannst í fór­um manns­ins eða á heim­ili hans en til dæm­is má nefna byssu­skot og handskrifaða miða. Á miðunum á að standa San­dy Hook“ og „Cul­umb­ine“ ásamt nöfn­um á YouTu­be rás­um en í dag­legu tali er minnst á San­dy Hook og Col­umb­ine sem mann­skæðar skotárás­ir í Banda­ríkj­un­um.

Í San­dy Hook árás­inni, sem fram­in var árið 2012 á leik­skóla, lét­ust 26 og voru 20 börn skot­in til bana. Í Col­umb­ine voru 15 nem­end­ur í Col­umb­ine High School skot­in til bana.

Hafi séð sig sem fjölda­morðingja 

Þá er einnig farið yfir hin ýmsu skrif sem eiga að hafa fund­ist hjá hinum ákærða, þar á meðal vik­una áður en að árás­in var fram­in.

Í skrif­un­um seg­ist maður­inn til dæm­is hafa sagt lækni sín­um frá því að hann væri fjölda­morðingi.

„Ég sagði lækn­in­um mín­um fyr­ir viku síðan að ég sjái sjálf­an mig sem fjölda­morðingja. Ég hélt að lög­regl­an myndi koma að sækja mig“.

Meðvitaður um fólk sem þyk­ist vera dautt

Þá kem­ur einnig fram að maður­inn hafi skrifað hjá sér að hann þyrfti að vera meðvitaður um fólk sem myndi þykj­ast vera dautt og fá það til að bregðast við. Einnig er greint frá því að hann hafi íhugað að fremja árás á leik­skóla.

Mynd­band af hinum ákærða að tala fyr­ir fram­an vef­mynda­vél áður en að árás­in var fram­in var sýnt í rétt­ar­saln­um.

Fram kem­ur að maður­inn hafi sakað fólk um að niður­lægja sig og hundsa og að kerfið sé of van­hæft til þess að stöðva sig. Hann hafi varað fólk við en ekki fengið meðhöndl­un.  

„Ég er eins og mann­eskja án and­lits. Ég hef engu að tapa,“ er haft eft­ir mann­in­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert