Umdeildur glaumgosi hverfur á braut

Silvio Berlusconi, sem er látinn, 86 ára að aldri, var allsráðandi á Ítalíu í áratugi sem fjölmiðlamógúll, milljarðamæringur og sá forsætisráðherra sem hefur verið lengst við völd í landinu. Hneykslismál honum tengd voru aftur á móti aldrei langt undan.

Berlusconi, sem eitt sinn líkti sjálfum sér við Jesús, var eins konar Donald Trump, áður en Trump steig fram á sjónarsviðið í stjórnmálunum. Sem ríkasti einstaklingur Ítalíu í áratug nýtti hann fjölmiðla sína og dagblöð til að hafa áhrif á þjóðfélagsumræðuna og var einnig valdamikill sem ástríðufullur eigandi knattspyrnufélagsins AC Milan í 31 ár, eða til ársins 2017.

Löngu áður en Donald Trump nýtti sér viðskiptaveldi sitt og frægð sína úr raunveruleikasjónvarpi til að verða forseti Bandaríkjanna heillaði Berlusconi milljónir Ítala með því að stíga fram sem maður sem komst til metorða upp á eigin spýtur, náungi sem naut lífsins, talaði á hreinskilinn hátt, jafnvel svo hreinskilinn að hann móðgaði aðra ítalska leiðtoga.

Gagnrýnendur hins hægrisinnaða Berlusconi hans sögðu hann aftur á móti vera glaumgosa sem kom sér undan sköttum og notaði fjölmiðlaveldi sitt til stuðnings stjórnmálaferli sínum. Hann hafi misnotað völd sín til að vernda eigin fyrirtæki.

Stóran hluta ævi sinnar átti hann í lagadeilum. Sem dæmi lauk ekki fyrr en í febrúar á þessu ári málum sem tengdust alræmdu „Bunga Bunga“-veislunum hans þar sem ungar konur, sumar undir lögaldri, voru viðstaddar.

Berlusconi árið 2011.
Berlusconi árið 2011. AFP/Daniel Mihailescu

Þrátt fyrir að hafa verið formaður Forza Italia-flokksins, sem var hluti af samsteypustjórn forsætisráðherrans Giorgia Meloni, hafði Berlusconi að mestu dregið sig úr sviðsljósinu síðustu árin eftir að heilsu hans tók að hraka.

Þegar hann kom fram opinberlega gætti hann þess þó alltaf að vera fínt klæddur og vel greiddur þar sem hvergi sást í grá hár. Á sama tíma bar andlit hans merki um fjölmargar fegrunaraðgerðir.

Berlusconi flytur ræðu.
Berlusconi flytur ræðu. AFP/Gabriel Bouys

Berlusconi lá á sjúkrahúsi í 11 daga í september 2020 eftir að hafa smitast af kórónuveirunni og lýsti hann veikindunum sem „mögulega mestu þolraun lífs míns“.

Í apríl síðastliðnum sögðu læknar að hann þjáðist af hvítblæði eftir að hann hafði verið lagður inn á sjúkrahús vegna lungnasýkingar. Eftir 45 daga á sjúkrahúsi hrósaði hann sigri og sagði: „Ég hef unnið enn á ný!“ Þremur vikum seinna var hann þó aftur lagður inn og nokkrum dögum síðar lést hann.

Berlusconi árið 2019.
Berlusconi árið 2019. AFP/Filippo Monteforte

Berlusconi spratt fram á pólitíska sjónarsviðið snemma á tíunda áratugnum eftir að hafa haslað sér völl í fasteignaviðskiptum og sem fjölmiðlaeigandi. Ferskir vindar voru sagðir fylgja honum eftir tímabil spillingar og hneykslismála. Faðir hans var bankastarfsmaður en móðir hans heimavinnandi húsmóðir.

Berlusconi árið 1986 ásamt franska viðskiptajöfrinum Jerome Seydoux.
Berlusconi árið 1986 ásamt franska viðskiptajöfrinum Jerome Seydoux. AFP/Philippe Bouchon

Samningur í beinni útsendingu

Með stuðningi sjónvarpsstöðva sinna og dagblaða tryggði hann sér sinn fyrsta kosningasigur árið 1994 með stjórnmálahreyfingunni sinni Forza Italia! (Áfram Ítalía!), sem var nefnd eftir hrópum á fótboltavöllum. Hann entist aðeins sem forsætisráðherra í níu mánuði en sneri aftur eftir annan kosningasigur árið 2001 að lokinni kosningaherferð í anda popúlista þar sem hann lofaði störfum og hagvexti og skrifaði undir „Samning við Ítala“ í beinni sjónvarpsútsendingu.

Hann starfaði sem forsætisráðherra til ársins 2006 og gegndi embættinu svo aftur frá 2008 til 2011. Varð hann þar með sá forsætisráðherra sem hafði verið lengst við völd á Ítalíu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Þrátt fyrir fjölda dómsmála, en hann sagðist árið 2021 hafa gengið í gegnum 86 slík, varði hann aldrei tíma á bak við lás og slá og áfrýjaði ávallt með góðum árangri dómunum sem hann hlaut fyrir fjársvik og spillingu á fyrri hluta stjórnmálaferils síns.

Árið 2013 var Berlusconi sakfelldur fyrir skattsvik og þurfti fyrir vikið að sinna samfélagsþjónustu á hjúkrunarheimili fyrir alzheimer-sjúklinga. Einnig var hann lengi orðaður við mafíutengsl en hann harðneitaði því ávallt.

Berlusconi flytur ræðu í september í fyrra.
Berlusconi flytur ræðu í september í fyrra. AFP/Alberto Pizzoli

Á alþjóðasviðinu var Berlusconi þekktur fyrir vinskap sinn við leiðtoga á borð við Muammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, og Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Vakti það mikla athygli þegar hann varði þann síðarnefnda eftir innrás Rússa í Úkraínu í fyrra.

Berlusconi þerrar svitann af sér árið 2004.
Berlusconi þerrar svitann af sér árið 2004. AFP/Andreas Solaro

Ítalinn hafði engan tíma fyrir hefðbundin samskipti í utanríkismálum og líkti einu sinni þýskum þingmanni við nasista og lýsti Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, sem „sólbrúnum“.

Berlusconi og Gaddafi.
Berlusconi og Gaddafi. AFP/Claudio Onorati

„Bunga Bunga“-hneykslið

Ímynd hans beið enn frekari hnekki þegar ótrúlegar lýsingar frá kynsvalli hans í glæsivillu hans skammt frá Mílanó voru dregnar fram í dagsljósið í réttarhöldum þar sem 17 ára dansari á næturklúbbi kom við sögu.

Árið 2013 var Berlusconi dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að greiða fyrir kynlíf með Karima El-Mahrough, þekkt sem „Ruby hjartaknúsari“. Síðar var málinu vísað frá eftir að dómarinn sagði það ekki hafið yfir vafa hvort hann hefði vitað að hún væri undir lögaldri.

Einnig var Berlusconi sakaður um að hafa mútað vitnum til að ljúga til um „Bunga Bunga“-partíin sín, sem hann sagði alltaf hafa verið glæsileg kvöldverðarboð. Hann var sýknaður í þremur réttarhöldum tengdum þessu.

Samband hans við aðra stúlku undir lögaldri leiddi til þess að annað hjónaband hans með leikkonunni fyrrverandi, Veronicu Lario, leið undir lok. Hún yfirgaf hann árið 2009.

Fundur leiðtoga G20-ríkja árið 2009. Frá vinstri: Barack Obama, Berlusconi …
Fundur leiðtoga G20-ríkja árið 2009. Frá vinstri: Barack Obama, Berlusconi og Dmitry Medvedev, þáverandi forseti Rússlands. AFP/Eric Feferberg

Hann neyddist jafnframt til að segja af sér embætti eftir að skuldum hlaðin Ítalía var undir miklum þrýstingi vegna efnahagshrunsins.

Valdatíð mannsins sem var kallaður „Il Cavaliere“, eða Riddarinn, skipti Ítölum í tvær fylkingar. Ekki bara vegna stefnumála sinna, þar á meðal umdeildrar ákvörðunar um að taka þátt í innrásinni í Írak sem var leidd af Bandaríkjamönnum, heldur líka almennra viðhorfa sinna til lífsins.

Berlusconi og Veronica Lario í Róm árið 2004.
Berlusconi og Veronica Lario í Róm árið 2004. AFP/vincenzo Pinto

Á meðan hann var við völd nörtuðu saksóknarar í hælana á honum, jafnvel þótt stuðningsmenn hans á þingi innleiddu lög til að vernda hann og samherja hans.

Árið 2022 komst hann síðan í fréttirnar þegar hann hélt undarlegt gervibrúðkaup með kærustu sinni, Mörtu Fascina, sem þá var 32 ára.

Fimm Evróputitlar

Berlusconi útvegaði félagi sínu, AC Milan fjármagn, auk þess sem hann mætti reglulega í búningsherbergi leikmanna og á æfingasvæðið þar sem hann stappaði stálinu í sína menn. Félagið sankaði að sér titlum og vann fimm titla í Evrópukeppnum á meðan Berlusconi var við völd.

AFP/Alberto Lingria

Hann seldi klúbbinn árið 2017 eftir dapra frammistöðu í mörg ár á undan og keypti Monza ári síðar, sem þá var í þriðju efstu deild ítölsku deildakeppninnar en vann sig síðar upp í efstu deild. 

Berlusconi fagnar sigri AC Milan gegn Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar …
Berlusconi fagnar sigri AC Milan gegn Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2007. AFP/Olivier Morin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert