Tveir nemendur meðal þeirra látnu í Nottingham

Tveir hinna látnu voru 19 ára nemendur við Nottingham Háskóla.
Tveir hinna látnu voru 19 ára nemendur við Nottingham Háskóla. AFP

Tveir þeirra þriggja sem létust í stunguárás í Nottingham-borg í Bretlandi, voru 19 ára nemendur við Nottingham-háskóla. 31 árs gamall karlmaður hefur verið handtekinn í tengslum við málið. 

Á blaðamannafundi síðdegis í dag sagði lögregluþjónninn Kate Meynell að tveir 19 ára einstaklingar hafi fundist með alvarleg stungusár og án lífsmarka á Ilkeston-vegi. Karlmaður á sextugsaldri hafi einnig fundist með stungusár á Magdala-vegi.

Sendibíl hins látna notaður til að keyra á vegfarendur

Lögreglan telur að sendibíl mannsins hafi verið stolið og notaður til að aka á gangandi vegfarendur. Meynell bætti við að lögregla hafi gert húsleitir á nokkrum heimilum í borginni í tengslum við rannsókn málsins, en hefði ekki fleiri grunaða að svo stöddu. 

„Þetta er sorglegur dagur fyrir borgina okkar og við munum gera allt í okkar valdi til að leita réttlætis fyrir fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra,“ sagði Meynell. 

Háskólinn votar samhug

Háskólinn í Nottingham hefur einnig gefið frá sér tilkynningu í kjölfar árásinnar. 

„Það er með mikilli sorg sem við staðfestum skyndilegt og óvænt andlát tveggja nemenda okkar eftir atvik í miðborg Nottingham í nótt. Við erum niðurbrotin og í áfalli vegna fréttanna og er allur hugur okkar hjá fjölskyldu og aðstandendum fórnalambanna. Við erum meðvituð um að þetta muni líklega valda starfsfólki okkar og nemendum mikilli vanlíðan.“

Kvöldvaka haldin fyrir fórnalömbin

Kyrrðarstund verður fyrir fórnarlömbin í kvöld að sögn formanns borgarráðs í Nottingham. 

„Nottingham er borg þar sem fólki kemur vel saman, þar sem fólk býr í sátt og samlyndi, fólk vinnur saman. Að þetta atvik hafi áhrif á þá friðsemd er hræðilegt, við verðum að standa saman gegn slíku atviki hver sem upptök þess voru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert