Vísuðu níu rússneskum diplómötum úr landi

Pekka Haavisto er fyrir miðri mynd.
Pekka Haavisto er fyrir miðri mynd. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Hvert ríkir tekur sínar eigin ákvarðanir í slíkum málum. Við höfum lokað tveimur ræðismannsskrifstofum í Rússlandi vegna lítillar starfsemi þar. Sendiráð okkar í Moskvu er opið sem og ræðismannsskrifstofan í Sánkti Pétursborg og rússneska sendiráðið í Helsinki er opið,“ sagði Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands í samtali við mbl.is í dag.

Hann var spurður um hvort Finnar hefðu hug á að fara að dæmi Íslendinga og loka sendiráði sínu þar í landi. Haavisto sat fund utanríkisráðherra Norðurlandanna sem fram fór á Ísafirði í dag.

Talsverðir hagsmunir í húfi

Haavisto sagði að umtalsverð samskipti væru á milli þegna ríkjanna, bæði Rússa sem væru starfandi í Finnlandi eða þar í námi. Einnig væru umtalsverð fjölskyldutengsl yfir landamæri ríkjanna.

„Það eru því talsverðir hagsmunir í húfi og einnig er nokkuð um fólk sem er með tvöfaldan ríkisborgararétt, þannig að hagsmunir okkar eru að halda samskiptunum opnum. Við höfum því engin áform um að loka sendiráði okkar í Rússlandi.

Við vísuðum þó níu rússneskum diplómötum úr landi í síðustu viku fyrir að fara ekki að ákvæðum Vínarsamningsins um diplómatísk samskipti og hafa þeir því dregið úr starfsemi sinni í Finnlandi sem því nemur,“ sagði hann.

Styðja Svía

Varðandi umsókn Svía að Atlantshafsbandalaginu, NATO, sagði Haavisto að Finnar styddu umsóknina einarðlega. Á morgun, miðvikudag yrði haldinn fundur finnskra, sænskra og tyrkneskra embættismanna sem fram fer í Ankara í Tyrklandi. Þar yrði farið yfir stöðu mála hvað varðar skilyrði sem Tyrkir settu fyrir inngöngu Svía í bandalagið.

„Við teljum að Svíar hafi uppfyllt þau skilyrði og vonum að aðildarumsókn þeirra verði samþykkt,“ sagði Pekka Haavisto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert