Hin 19 ára gömlu Barnaby Webber og Grace Kumar voru stungin til bana í gærmorgun í Nottingham í Bretlandi.
BBC greinir frá þessu en auk unga parsins var maður á sextugsaldri einnig stunginn til bana. Eftir stunguárásirnar keyrði árásarmaðurinn á þrjár manneskjur á sendiferðabíl eldri mannsins.
Lögregla hefur ekki gefið út nöfn unga parsins formlega en fjölskylda Webber staðfesti að hann hefði látist. Hann stundaði nám við háskólann í Nottingham og æfði krikket.
Sky News greinir frá því að Kumar stundaði einnig nám við háskólann og æfði hokkí. Hún spilaði með unglingalandsliðum Englands sem minntust hennar í yfirlýsingu.
Lögregla notaði rafbyssu við handtöku á árásarmanninum.
Hryðjuverkalögregla Bretlands tekur þátt í rannsókn á málinu, en tengsl árásarmannsins við öfgahópa hafa ekki verið staðfest. Þá eru orsök árásanna óljós.
Hann er 31 árs gamall og er talin vera innflytjandi frá Vestur-Afríku.