Sá grunaði fyrrum nemandi í Nottingham-háskóla

Sendiferðabíllinn sem Calocane stal af húsverðinum sem hann stakk til …
Sendiferðabíllinn sem Calocane stal af húsverðinum sem hann stakk til bana. AFP

Maðurinn sem hefur verið handtekinn vegna gruns um að hafa framið stunguárásina í Nottingham á þriðjudaginn er 31 árs fyrrum nemandi í Nottingham-háskóla í Bretlandi og heitir Valdo Amissão Mendes Calocane

Dagblaðið Guardian greinir frá þessu.

Eins og áður hefur verið greint frá voru þrír stungnir til bana í árásinni á þriðjudaginn en miðborg Nottingham var lokað eftir að þrír fundust látnir á þriðjudagsmorgun. Meðal þeirra látnu eru tveir nítján ára nemendur og 65 ára gamall húsvörður í grunnskóla í Nottingham.

Stal sendiferðabíl og keyrði í átt að fólki

Samkvæmt heimildum Guardian fæddist Calocane í Gíneu-Bissá en flutti með fjölskyldu sinni til Nottingham þegar hann var sjö ára. 

Talið er að árás Calocane hafi staðið yfir í 90 mínútur á þriðjudaginn. Hann stakk fyrst tvo nemendur við Nottingham-háskóla til bana, þau Grace O'Malley-Kumar og Barnaby Webber. Að því loknu stakk hann hinn 65 ára gamla Ian Coates til bana og stal sendiferðabíl hans og keyrði honum í átt að fólki sem átti leið hjá.

Ekkert bendi til að árásin sé tengd skólanum

Nottingham-háskóli gaf frá sér yfirlýsingu eftir að í ljós komst að árásamaðurinn hafi verið nemandi í skólanum. Í yfirlýsingunni segir að stjórnendur skólans séu í molum vegna árásar fyrrum nemanda. Lögreglan á svæðinu segir ekkert benda til að morðin séu tengd skólanum að einhverju leyti. 

Calocane situr nú í gæsluvarðhaldi en það rennur út á morgun. Rannsókn stendur enn yfir en ekkert bendir til að einhverskonar hugmyndafræði hafi verið grundvöllur að voðaverki Calocane. 

Samkvæmt heimildum Guardian hefur hann átt við andleg veikindi að stríða í nokkurn tíma og hefur lengi verið góðkunnugur lögreglunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert