Maðurinn sem grunaður er um að hafa framið stunguárásina í Nottingham á þriðjudaginn hefur verið ákærður fyrir morð. Maðurinn, sem er 31 árs, er fyrrum nemandi í Nottingham-háskóla í Bretlandi og heitir Valdo Amissão Mendes Calocane.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Þrír voru stungnir til bana í árásinni á þriðjudaginn og miðborg Nottingham var lokað eftir að þrír fundust látnir um morguninn. Hinir látnu voru Barnaby Webber og Grace O'Malley-Kumar, sem bæði voru 19 ára nemendur við Nottingham-háskóla, og hinn 65 ára gamli Ian Coates, sem var húsvörður í grunnskóla.
Lögreglan á svæðinu hefur hins vegar sagt ekkert benda til að morðin séu tengd skólanum að nokkru leyti.
Nú hefur Calocane verið ákærður fyrir morðið á þeim þremur. Hefur hann þar að auki verið ákærður fyrir tilraun til morðs í þremur liðum, þar sem hann slasaði einnig þrjá einstaklinga til viðbótar, einn hverra slasaðist alvarlega.
Calocane mun því fara fyrir dóm á morgun.