Átti „uppbyggilegt“ og „opinskátt“ samtal í Kína

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Qin Gang, utanríkisráðherra Kína. Blinken …
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Qin Gang, utanríkisráðherra Kína. Blinken er í tveggja daga heimsókn í Kína. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir samtalið sem hann átti við Qin Gang, utanríkisráðherra Kína, hafa verið „opinskátt“ og „uppbyggilegt“. Blinken hefur nú boðið Gang til Bandaríkjanna, að sögn talsmanns bandaríska ráðuneytisins.

Blinken er nú í tveggja daga heimsókn í Kína. Hann mun fara á hina ýmsu fundi og reyna að draga úr spennu í samskiptum Kína og Bandaríkjanna.

Um er að ræða fyrstu heimsókn bandarísks utanríkisráðherra til Kína í fimm ár en síðasta heimsókn var árið 2018, þegar forveri Blinkens, Mike Pompeo, fór til landsins. Blinken mætti til landsins í gær. Heimsóknin hófst á fundi milli Blinkens og Qin Gang, utanríkisráherra Kína.

Stjórnvöld beggja landa hafa sagst vilja bæta samskiptin sín á milli. Blinken hefur áður sagt að hann leitist við að forðast alla „misreikninga“ og að hann vilji stýra samskiptum við Kína „á ábyrgan hátt“.

Fjöldi ágreiningsmála

Ágreiningsefni þjóðanna eru fjölmörg. Sem dæmi má nefna deilur um Taívan, mannréttindamál í Kína og Hong Kong, hernaðarumsvif Kínverja í Suður-Kínahafi og ekki síst stuðningur Kína við stríðsrekstur Rússa í Úkraínu.

Blinken átti að heimsækja Kína í febrúar en þeirri ferð var frestað eftir að kínverskir loftbelgir, sem voru grunaðir um að vera til njósna, fundust á sveimi yfir Bandaríkjunum. Þegar Blinken var á leiðinni út sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti: „Ég held að stjórnvöld [í Kína] hafi ekki vitað hvar [blaðran] væri eða ekki vitað hvað væri í gangi yfir höfuð.“

„Mér finnst þetta vera meira vandræðalegt heldur en að þetta sé viljandi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka