Myndskeið: Mikið dansað í nýju „partygate“ máli

Lögreglan í London rannsakar nú málið.
Lögreglan í London rannsakar nú málið. AFP

Michael Gove, innanríkisráðherra Bretlands, hefur beðist afsökunar á myndskeiði sem birtist í fjölmiðlum í gær sem sýnir veisluhöld Íhaldsflokksins rétt fyrir jólin árið 2020 þegar að kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Veislan fór fram í höfuðstöðvum flokksins.

Í myndskeiðinu má sjá starfsfólk og meðlimi Íhaldsflokksins dansa og drekka á meðan þau tala um að beygja reglurnar. Á þeim tíma sem myndskeiðið var tekið upp var strangt samkomubann í London. Myndskeiðið má berja augum í spilaranum hér fyrir neðan.

Fjölmiðlar í Bretlandi hafa mikið fjallað um málið í dag og hafa margir hneykslast á því sem fram kemur í myndskeiðinu. 

BBC greinir frá þessu.

Hafði áður hvatt Johnson til að segja af sér

Eins og áður hefur verið greint frá olli svokallað „partygate“ mál Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, miklu fjaðrafoki á sínum tíma en málið snerist um endurtekin veisluhöld Johnson í Downingstræti 10 á tímum kórónuveirufaraldursins. 

Málið leiddi að lokum til þess að Johnson sagði af sér sem forsætisráðherra og nú nýlega sagði hann af sér þingmennsku vegna skýrslu sem þingið birti um málið. Gove var á sínum tíma rekinn sem ráðherra af Johnson eftir að hann hvatti þáverandi forsætisráðherra til að segja af sér vegna „partygate“ málsins.

Lögreglan í London gaf út yfirlýsingu þar sem sagði að hún væri meðvituð um myndskeiðið og að hún íhugaði næstu skref. Lögreglan hefur áður rannsakað tilvikið en þá voru aðeins ljósmyndir til af veisluhöldunum og var engin sekt gefin út vegna veisluhaldanna á sínum tíma.

Í myndskeiðinu heyrist í einum segja: „Það er allt í lagi að taka upp svo lengi sem við streymum þessu ekki. Það er eins og við séum að beygja reglurnar.“

Michael Gove, innanríkisráðherra Bretlands, biðst afsökunar á myndskeiðinu.
Michael Gove, innanríkisráðherra Bretlands, biðst afsökunar á myndskeiðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert