Ný réttarhöld yfir Navalní hefjast í dag

Navalní var handtekinn árið 2021.
Navalní var handtekinn árið 2021. AFP

Ný réttarhöld yfir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní hefjast í dag. Hann er ákærður fyrir öfgastefnu. Navalní var dæmdur í níu ára fangelsi á síðasta ári fyrir fjársvik og gæti nýr dómur leitt til áratugalangrar fangelsisvistar. 

Réttarhöldin sem hefjast í dag eru haldin í fangelsinu sem hann dvelur í, um 250 kílómetra austur af Moskvu. 

BBC greinir frá því að ákæran á hendur Navalní sé margþætt, en hann er meðal annars grunaður um að stofna öfgasamtök og fjármagna öfgastefnu. 

30 ár til viðbótar

Ef Navalní verður sakfelldur gæti hann þurft að sitja í fangelsi í 30 ár til viðbótar við þau níu ár sem hann hefur nú þegar verið dæmdur í. 

Navalní er 47 ára gamall og er einn þekktasti stjórnarandstæðingur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta. 

Navalní var handtekinn árið 2021 er hann kom til Rússlands frá Þýskalandi. Þar hafði hann dvalið á sjúkrahúsi eftir að eitrað var fyrir honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert