Réttarhöld fara fram fyrir luktum dyrum

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní sést á skjá við réttarhöldin í …
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní sést á skjá við réttarhöldin í fangelsinu. AFP/Natalia Kolesnikova

Rússneskur dómstóll hefur fyrirskipað að réttarhöld yfir stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní fari fram fyrir luktum dyrum. Fjölmiðlar og áhorfendur þurftu að yfirgefa bygginguna fyrr í dag.

Réttarhöldin hófust í dag í fangelsinu sem Navalní dvelur í, um 250 kílómetra austur af Moskvu. Hann er ákærður fyrir öfgastefnu.

„Dómurinn hefur ákveðið að hafa réttarhöldin yfir Navalní lokuð,“ sagði Vadim Pozhelayev, talsmaður dómstólsins í Moskvu, við blaðamenn nokkrum klukkustundum eftir að réttarhöld hófust.

Hann bað svo fjölmiðla um að yfirgefa bygginguna.

Faðir Navalní, Anatoly, þurfti að yfirgefa bygginguna eftir að réttarhöldum …
Faðir Navalní, Anatoly, þurfti að yfirgefa bygginguna eftir að réttarhöldum var lokað. AFP/Natalia Kolesnikova

Föður Navalní gert að yfirgefa réttarhöldin

„Blygðunarlaust, engin samviska eða heiður,“ sagði faðir Navalní, Anatoly, við AFP þegar honum var gert að yfirgefa réttarhöld yfir syni sínum.

Navalní var dæmdur í níu ára fangelsi á síðasta ári fyrir fjársvik og gæti nýr dómur leitt til áratugalangrar fangelsisvistar. Ef Navalní verður sakfelldur gæti hann þurft að sitja í fangelsi í 30 ár til viðbótar.

Navalní er 47 ára gamall og er einn þekktasti stjórnarandstæðingur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.

Navalní sagði að saksóknarar hefðu afhent honum 3.828 blaðsíðna skjal með lýsingum á öllum þeim glæpum sem hann er sagður hafa framið á meðan hann hefur setið í fangelsi.

„Þrátt fyrir að það sé ljóst af stærð bindisins að ég sé margbrotinn og þrálátur glæpamaður, þá er ómögulegt að komast að því hvað ég er nákvæmlega sakaður um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert