Hafa súrefni í 40 tíma

Jamie Frederick, yfirmaður í bandarísku landhelgisgæslunni, greinir frá stöðu mála …
Jamie Frederick, yfirmaður í bandarísku landhelgisgæslunni, greinir frá stöðu mála á blaðamannafundinum í Boston. AFP/Joseph Prezioso

Fimm manna áhöfn kafbáts fyrirtækisins OceanGate, sem hvarf á ferðalagi sínu niður að flaki örlagafleysins Titanic, er nú talin hafa súrefnisbirgðir í 40 klukkustundir. Kom þetta fram á blaðamannafundi bandarísku landhelgisgæslunnar sem lauk fyrir stundu í Boston.

Fjarstýrður kafbátur gæslunnar leitar kafbátsins horfna nú en stjórnendur leitarbátsins hafa ekki enn haft erindi sem erfiði. Jamie Frederick, talsmaður landhelgisgæslunnar, kveður hug samstarfsmanna sinna vera hjá ástvinum fimmmenninganna í bátnum sem saknað er.

Stærra en Connecticut

Segir hann landhelgisgæslu og sjóher Bandaríkjanna og Kanada leggja nótt við dag í leitinni að kafbátnum en svæðið sem leitað er á er 20.000 ferkílómetrar mælt við yfirborð sjávar, svæði sem er um einn fimmti hluti Íslands og auk þess rétt rúmlega stærra en Connecticut-ríki Bandaríkjanna.

„Við erum þarna úti og við erum að leita,“ segir Frederick og bætir því við að finnist kafbáturinn horfni muni til þess bærir sérfræðingar meta hvernig heppilegast sé að komast að honum.

Leitin er að hans sögn ekkert áhlaupaverk, sé hún mjög tímafrek auk þess sem áhafnar leitarskipa þurfi að samræma vinnu sína mjög nákvæmlega. „Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga fólkinu,“ segir Jamie Frederick að lokum.

CNN

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert