Niðurskurður til hermála gekk of langt

Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar.
Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar. mbl.is/Eyþór Árnason

Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, segir Svía hafi skorið of mikið niður í hermálum eftir lok kalda stríðsins.

„Útgjöld til varnarmála voru of lítil allan tíunda áratuginn. Það ástand varði allt fram til 2014.“

2014 er árið sem Rússar innlimuðu Krímskaga og vakti Svía af værum blundi.

Svíar hafa tekið sig á

Jonson er á Íslandi vegna fundar NORDEFCO, norræns samstarfsvettvangs í varnarmálum, sem fram fer í Reykjavík. Í samtali við mbl.is segir hann Svía hafa tekið sig stórlega á síðustu ár. „Í fjárlögum til varnarmála árið 2020 náðum við algerri samstöðu í þinginu að stefna að því marki að útgjöld Svía myndu ná markinu að verða 2% af vergri landsframleiðslu.“

Jonson er spurður að því hvort hann telji samstarfsvettvang eins og NORDEFCO geta vakið tortryggni annarra bandalagsþjóða NATO, þar sem komið væri upp svæðisbundið bandalag. Jonson óttast það ekki og telur NORDEFCO gagnlegt fyrir frið og stöðugleika í Norður-Evrópu. Norrænt varnarsamstarf hefur verið dýpkað, sem fyrir vikið eykur getuna til sameiginlegs viðbragðs Norðurlandaþjóða ef til ófriðar kemur.

Svíar geta varið Eystrasalt

Jonson telur aðild Svía geta veitt fullkomnari varnir á Eystrasalti. Svíar geti þannig stutt frekar við varnir Finna. „Hlutverk okkar í vörnum Eystrasaltsins verður mjög mikilvægt enda höfum við gríðarmikla reynslu af aðgerðum á því svæði. Við eigum góðan flota og ef við verðum bandalagsþjóð mun þessi herstyrkur ekki bara gagnast okkur heldur bandalaginu öllu.“

Aðspurður um hvernig Svíar hafi aukið varnir sínar svarar Jonson: „Við höfum styrkt herinn. Nú höfum við endurvakið fimm aflagðar herdeildir. Við höfum aukið fjölda orrustuþota, og rekum nú tvær gerðir af sænskum Saab Gripen orrustuþotum. Auk þess höfum við aukið við netöryggi okkar og getu í þeim efnum.“

Breiður stuðningur heimafyrir

Varnarmálaráðherrann er handviss um að aðild Svía að NATO er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Almenningur í Svíþjóð er heilshugar á bak við þá ákvörðun og hefur fylgi við ákvörðunina farið stöðugt upp eftir innrás Rússa í Úkraínu. Jonson segir að ný skoðanakönnun mæli stuðning upp á nær 70%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert