Hver klukkustund telur í leit að týnda kafbátnum. Kafbáturinn hefur vanalega súrefnisbirgðir til 96 klukkustunda ef fimm einstaklingar eru um borð.
Meira en sólarhringur er síðan kafbáturinn fór úr höfn og þegar þetta er skrifað ættu að vera um súrefnisbirgðir til 70 klukkustunda til viðbótar.
John Mauger, hjá bandarísku strandgæslunni, sagði að leit væri mjög erfið á svo afskekktu hafsvæði. Leit strandgæslunnar nær yfir hafflöt sem spannar tæpa 1.500 ferkílómetra.
Auk bandarísku strandgæslunnar, tekur sú kanadíska líka þátt í leitinni. Við leitina nú eru einkum notaðar flugvélar útbúnar hljóðsjám, sem geta greint kafbáta neðansjávar.
Kafbáturinn var á leið niður að skipsflaki Titanic með ferðamenn þegar leitin að honum hófst.
Flak Titanic er á 3.800 metra dýpt í Atlantshafi og um 600 kílómetra frá strönd Kanada. Eins og þekkt er var farþegaskipið stærsta skip í heiminum á sínum tíma áður en það sökk í jómfrúarferð sinni frá borginni Southampton í Englandi til New York-borgar í Bandaríkjunum árið 1912, en um 1.500 manns létust í slysinu.