Tveggja er saknað og að minnsta kosti 24 eru slasaðir eftir að sprenging átti sér stað í miðborg Parísar í dag. Samkvæmt tilkynningu lögreglu eru fjórir einstaklingar alvarlega slasaðir. AFP greinir frá.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um uppruna sprengingarinnar sem tætti í sundur sögulega byggingu í miðborginni, á götunni Saint-Jacques í 5. hverfi borgarinnar.
Í kjölfar sprengingarinnar logaði mikill eldur sem olli því að bygging sem áður hýsti tískuskóla hrundi til jarðar ásamt þeirri sem stóð henni við hlið.
Um 70 slökkviliðsbílar, 230 slökkviliðsmenn og níu læknar voru á vettvangi og gekk greiðlega að slökkva eldinn síðdegis.
Florence Berthourt, borgarstjóri 5. hverfis Parísarborgar, segir sprenginguna hafa ómað um götur hverfisins. Lögreglurannsókn var hrint af stað samstundis og vinna yfirvöld í París að því í augnablikinu að komast til botns í málinu.