Atli Steinn Guðmundsson
Fjarstýrður leitarkafbátur franska teymisins, sem í gær kom á leitarsvæðið við flak Titanic til liðveislu, fann í dag brak skammt frá skipsflakinu en þar segir sérfræðingurinn David Mearns að um sé að ræða undirstöðubúnaðinn, sem notaður er þegar kafbáturinn sest á hafsbotninn, auk hlífar af afturhluta bátsins.
Fjarstýrði kafbáturinn Victor 6000 er búinn gripörmum sem gera honum kleift að hreyfa hluti á hafsbotninum til ef þörf krefur en einnig er annar kafbátur væntanlegur á svæðið, Juliet, sem kemur frá Jersey í Bretlandi. Juliet hefur áður kannað svæðið þar sem Titanic liggur og verið þar við könnunarverkefni í alls 200 klukkustundir.
Bandaríska landhelgisgæslan segir aðgerðina á svæðinu enn snúast um leit og björgun og hefur því ekki gefið upp alla von en leitarsvæðið hefur enn verið stækkað, nær það nú yfir 26.000 ferkílómetra hafsvæði.
Hefur landhelgisgæslan boðað blaðamannafund klukkan 15 að austurstrandartíma Bandaríkjanna, klukkan 19 að íslenskum tíma, þar sem John Mauger aðmíráll og Jamie Frederick samhæfingarstjóri munu fara yfir stöðu mála.
Bretar leggja nú einnig gjörva hönd á plóg við leitina með því að senda kafbátinn Juliet auk sérfræðinga í neðansjávarleit. Er C-17-herflutningavél Konunglega breska flughersins á leið til Kanada með ýmsan búnað en bandaríska landhelgisgæslan óskaði sérstaklega eftir liðsinni Breta við leitina að kafbátnum horfna.