Tæknirisarnir og auðkýfingarnir Mark Zuckerberg og Elon Musk hafa fallist á mæta hvor öðrum í UFC-bardagabúri.
Musk virðist hafa átt frumkvæðið að fyrirhugðum slag, en hann birti skilaboð á Twitter-reikningi sínum þar sem hann kvaðst tilbúinn í „búrslag“ (e. cage fight) við forstjóra Meta.
Zuckerberg svaraði um hæl og birti skjáskot af tísti Musks með yfirskriftinni „sendu mér staðsetningu,“ og boðaði Musk þá til slagsins í Vegas-átthyrningnum, eða The Vegas Octagon.
Átthyrningurinn er vígvöllur bardagasamtakanna UFC, stærstu samtaka blandaðra bardagaíþrótta í heimi.
Zuckerberg, sem er 39 ára, er reyndur bardagamaður og hefur lengi stundað blandaðar bardagaíþróttir og brasilísku bardagaíþróttina Jiu Jitsu.
Musk, 52 ára, sagði í tísti að hann hreyfði sig lítið sem ekkert fyrir utan að halda á börnum sínum og kasta þeim upp í loftið.
Ekki er þó enn ráðið hvort af bardaganum verður, en flest tíst Musks um hann virðast vera á léttari nótunum. Hann hefur meðal annars birt ýmis myndbönd af rostungum og sagði að hans besta bardagabrella væri „Rostungurinn“ sem fælist í að leggjast ofan á andstæðinginn.
Mörgum Twitter-notendum virðist skemmt yfir tístum Musks og hafa ótal notendur búið til svokölluð „meme“ um bardagann og velt upp ýmsum vangaveltum um hvor forstjóranna myndi vinna bardagann, ef til hans kæmi.