Bræðravíg í uppsiglingu

Jevgení Prigosjín segist ætla leita hefnda gegn yfirstjórn rússneska hersins.
Jevgení Prigosjín segist ætla leita hefnda gegn yfirstjórn rússneska hersins. AFP

Jev­gení Prigó­sjín, yfirmaður rússnesku málaliðasveitarinnar Wagner, sakar rússneska herinn um árás á sveitir sínar. Segir það til marks um valdabaráttu og bræðravíg innan Rússlands.

Prigó­sjín segir að fjöldi liðsmanna hans hafi verið felldur í árásinni og að hann muni leita hefnda fyrir árásina.

Kemur það í kjölfar digurbarkalegrar yfirlýsingar, þar sem hann kenndi rússneska varnamálaráðherranum Sergei Shoígú um það að hafa hafið stríðið í Úkraínu.

Svar Kremlverja

Stjórnvöld í Moskvu neita því alfarið að hafa staðið að baki árásinni á Wagner-hópinn, samkvæmt fréttastofunni Tass. Segja þau enn fremur að ummæli Prigó­sjíns á samfélagsmiðlum séu sett fram til þess að ögra.

Rússneskir fjölmiðlar hafa líka sagt frá því að leyniþjónustan FSB hafi nú hafið sakamálarannsókn til þess að rannsaka hvort Prigó­sjín hafi hvatt til vopnaðrar uppreisnar í Rússlandi.

Ekki valdarán

Wagner-málaliðasveitin hefur barist við hlið rússneska hersins í Úkraínu. Grunnt hefur þó verið á því góða og Prigó­sjín verið óspar á gagnrýni á stjórn rússneska hersins. Prigó­sjín sagði í hljóðupptöku á samfélagsmiðlinum Telegram að „stöðva þarf þá illsku sem leiðtogar Rússlandshers bera í brjósti“, og bætti við: „Þeim sem ábyrgir eru fyrir dauða drengjanna okkar og tugþúsunda rússneskra hermanna verður refsað.“ Og ummælin urðu fleiri:

„Ég hvet ykkur til að veita ekki mótspyrnu. Hver sá sem gerir það ógnar okkur og verður tortímt. Þannig munum við skilgreina allar varðstöðvar og flugvélar sem við mætum á leið okkar.“

„Þetta er ekki valdarán heldur er gengið til réttlætis. Aðgerðir okkar munu ekki trufla starf hersins með nokkrum hætti.“

Eftir að hafa heyrt þessi orð Prigó­sjíns sendi FSB frá sér yfirlýsingu þar sem honum var skipað að hætta öllum ólöglegum aðgerðum, að því er BBC greinir frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert