Fjölskylda feðganna Shahzada og Suleman Dawood, sem fórust í Titan kafbátnum, lýstu djúpum harmi yfr missi þeirra. Allir fimm mennirnir er voru um borð í bátnum eru taldir af, en talið er að hann hafi fallið saman vegna þrýstings.
„Það er með djúpum harmi sem við tilkynnum andlát Shahzada og Suleman Dawood,“ sagði í yfirlýsingu fjölskyldunnar, undirritaða af Hussain og Kulsum Dawood, foreldrum Shahzada.
„Við vottum fjölskyldum hinna farþeganna á Titan kafbátnum innilegar samúðarkveðjur. Við erum sannarlega þakklát öllum þeim sem tóku þátt í björgunaraðgerðunum.“
Shahzada var frá Pakistan búsettur í Bretlandi ásamt eiginkonu sinni, Christine, Suleman, og dóttur þeirra, Alinu. Suleman var aðeins 19 ára gamall.
Fjölskyldan lýsti Shahzada sem góðum föður með brennandi áhuga á ljósmyndun og að skoða mismunandi heimkynni. Þá hefði Suleman verið mikið fyrir vísindaskáldskap og að læra nýja hluti.
Forstjóri OceanGate, Stockton Rush, var einn fimm mannanna í kafbátnum. Auk hans og feðganna voru Hamish Harding og Paul-Henri Nargeolet.
Fjölskylda Harding heiðraði minningu hans og lýsti honum sem ástríðufullum landkönnuði, eiginmanni og föður, en Harding átti tvo syni.
„Það sem hann áorkaði á lífsleiðinni var sannarlega merkilegt og ef við getum haft einhverja huggun í þessum harmleik þá er það að við misstum hann við að gera það sem hann elskaði,“ sagði fjölskyldan í yfirlýsingu.