Prigósjín kominn yfir Rúbikon-fljótið

Prigósjín sést hér ræða við liðsmenn sína í Wagner-hópnum í …
Prigósjín sést hér ræða við liðsmenn sína í Wagner-hópnum í Bakhmút í maí sl. Telegram/concordgroup_official

Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, sagði nú rétt fyrir stundu að allar sveitir hans væru komnar inn fyrir landamæri Rússlands og að hópurinn myndi brátt sækja inn í Rostov við Don. Valerí Gerasímov, yfirmaður rússneska herráðsins, er sagður hafa fyrirskipað loftárásir á sveitir Wagner-hópsins í Rostov.

Prigósjín setti inn hljóðupptöku á Telegram-síðu sína og endurtók hann þar fyrri hótanir sínar um að hver sem stæði í vegi fyrir Wagner-liðum yrði veginn. Sagði hann jafnframt að Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, hefði sett 18 ára pilta í að verjast sókn Wagner-liða. Hvatti hann þá til þess að leggja vopn sín niður.

Óstaðfestar fregnir hafa borist um langar bílalestir á vegum Wagner-hópsins, sem væru á leiðinni til Rússlands, en Prigósjín sagði að þeir landamæraverðir sem málaliðarnir hefðu mætt hefðu tekið þeim fagnandi og jafnvel faðmað þá.

Brynvarðir bílar hafa sést á götum bæði Moskvu og Rostov á Don, en sú borg er ein helsta stjórnstöð rússneska hersins í Úkraínustríðinu.

Kallað eftir handtöku Prigósjíns

Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir fyrr í kvöld að þau hefðu gefið út handtökuskipun á hendur Prigósjín fyrir að hvetja til vopnaðrar uppreisnar, en við því broti liggur fangelsi á bilinu 12-20 ár.

Sergei Súrovikín hershöfðingi og Vladimír Alekseyev, aðstoðaryfirmaður GRU, leyniþjónustu rússneska hersins, birtu svo í kjölfarið hvor sína upptökuna, þar sem þeir skoruðu á Wagner-liða að snúa aftur til fyrri stöðva sinna og handtaka Prigósjín.

Svaraði talsmaður hópsins að þeir hershöfðingjar sem reyndu að standa í vegi fyrir honum myndu þurfa að taka afleiðingunum. Þannig yrði Súrovikín látinn svara sérstaklega fyrir brotthvarf rússneska hersins frá Kerson-borg í nóvember síðastliðnum.

Fylgjast grannt með stöðunni

Bandaríkjastjórn sendi frá sér tilkynningu um kl. 23.25 að íslenskum tíma, þar sem sagði að Bandaríkin fylgdust mjög grannt með stöðunni og myndu ráðfæra sig við bandamenn sína um þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert