Hafa tekið yfir Rostov

Prigósjín sést hér með málaliðum sínum í Bakhmút í maí …
Prigósjín sést hér með málaliðum sínum í Bakhmút í maí síðastliðnum, þegar borgin féll eftir margra mánaða bardaga. AFP/Concord Group

Allt útlit er fyrir að Wagner-málaliðahópurinn hafi nú Rostov á Don á valdi sínu. Myndskeið hafa nú birst á samfélagsmiðlum, sem sýna hermenn umkringja höfuðstöðvar suðurhers Rússlands, sem eru staðsettar í borginni.

Þá virðist sem að lítil sem engin mótspyrna hafi verið veitt þegar Wagner-hópurinn hélt inn í borgina.

Rostov þykir mjög mikilvæg fyrir hernað Rússa í Úkraínu, en þar hafa helstu stjórnstöðvar Rússahers fyrir innrásina verið staðsettar. Þá fer megnið af hergögnum og öðrum vistum til rússneska hersins í Úkraínu í gegnum Rostov.

Segjast hafa skotið niður herþyrlu

Wagner-hópurinn sagðist hafa skotið niður rússneska herþyrlu við Rostov á Don fyrr í kvöld. Þá bárust fregnir af skærum á milli Wagner-liða og rússneska hersins í nágrenni borgarinnar.

Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-hópsins, sendi fyrr í kvöld frá sér yfirlýsingu, þar sem hann varaði flugmenn á vegum rússneska hersins við því að reyna loftárásir á hersveitir sínar, sem voru þá sagðar á leiðinni til Rostov.

Skömmu síðar sagði hann að hermenn sínir hefðu skotið niður herþyrlu sem hefði hafið skothríð á þá. Hann birti engar sannanir fyrir því, en eftirfarandi myndband virðist sýna Wagner-liða vera að skjóta upp í loftið. Þá heyrist í skotbardaga í bakgrunni.

Hér má svo sjá myndband, sem á að sýna herflutningabíla Wagner-liða fara í gegnum eftirlitsstöð á vegum rússneska hersins án þess að þeim sé veitt nokkur mótspyrna fyrr í kvöld.


Margt er enn á huldu um valdaránstilraun Prigósjíns, en fregnir fyrr í kvöld hermdu að brynvarin farartæki hefðu sést bæði í Rostov og í Moskvu. Þá virðist sem að rússneskar herþyrlur séu nú á sveimi yfir Rostov.

Rússnesk stjórnvöld hafa einnig gripið til þess ráðs að loka fyrir aðgang Rússa að fréttasíðu Google, Google News, auk þess sem lokað hefur verið fyrir alla pósta á VKontakte, rússnesku útgáfuna af Facebook, sem nefna Prigósjín og yfirlýsingar hans.

Þá herma nýjustu tíðindi, sem enn eru óstaðfest, að skriðdrekar á vegum Wagner-hópsins, hafi nú farið inn fyrir borgarmörk Rostov, framhjá vegalokunum sem myndaðar voru með því að leggja strætisvagna fyrir helstu vegi að borginni.

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert