Hafa tekið yfir Rostov

Prigósjín sést hér með málaliðum sínum í Bakhmút í maí …
Prigósjín sést hér með málaliðum sínum í Bakhmút í maí síðastliðnum, þegar borgin féll eftir margra mánaða bardaga. AFP/Concord Group

Allt út­lit er fyr­ir að Wagner-málaliðahóp­ur­inn hafi nú Rostov á Don á valdi sínu. Mynd­skeið hafa nú birst á sam­fé­lags­miðlum, sem sýna her­menn um­kringja höfuðstöðvar suður­hers Rúss­lands, sem eru staðsett­ar í borg­inni.

Þá virðist sem að lít­il sem eng­in mót­spyrna hafi verið veitt þegar Wagner-hóp­ur­inn hélt inn í borg­ina.

Rostov þykir mjög mik­il­væg fyr­ir hernað Rússa í Úkraínu, en þar hafa helstu stjórn­stöðvar Rússa­hers fyr­ir inn­rás­ina verið staðsett­ar. Þá fer megnið af her­gögn­um og öðrum vist­um til rúss­neska hers­ins í Úkraínu í gegn­um Rostov.

Segj­ast hafa skotið niður herþyrlu

Wagner-hóp­ur­inn sagðist hafa skotið niður rúss­neska herþyrlu við Rostov á Don fyrr í kvöld. Þá bár­ust fregn­ir af skær­um á milli Wagner-liða og rúss­neska hers­ins í ná­grenni borg­ar­inn­ar.

Jev­gení Prigó­sjín, stofn­andi Wagner-hóps­ins, sendi fyrr í kvöld frá sér yf­ir­lýs­ingu, þar sem hann varaði flug­menn á veg­um rúss­neska hers­ins við því að reyna loft­árás­ir á her­sveit­ir sín­ar, sem voru þá sagðar á leiðinni til Rostov.

Skömmu síðar sagði hann að her­menn sín­ir hefðu skotið niður herþyrlu sem hefði hafið skot­hríð á þá. Hann birti eng­ar sann­an­ir fyr­ir því, en eft­ir­far­andi mynd­band virðist sýna Wagner-liða vera að skjóta upp í loftið. Þá heyr­ist í skot­b­ar­daga í bak­grunni.

Hér má svo sjá mynd­band, sem á að sýna her­flutn­inga­bíla Wagner-liða fara í gegn­um eft­ir­lits­stöð á veg­um rúss­neska hers­ins án þess að þeim sé veitt nokk­ur mót­spyrna fyrr í kvöld.


Margt er enn á huldu um vald­aránstilraun Prigó­sjíns, en fregn­ir fyrr í kvöld hermdu að bryn­var­in far­ar­tæki hefðu sést bæði í Rostov og í Moskvu. Þá virðist sem að rúss­nesk­ar herþyrl­ur séu nú á sveimi yfir Rostov.

Rúss­nesk stjórn­völd hafa einnig gripið til þess ráðs að loka fyr­ir aðgang Rússa að frétt­asíðu Google, Google News, auk þess sem lokað hef­ur verið fyr­ir alla pósta á VKontakte, rúss­nesku út­gáf­una af Face­book, sem nefna Prigó­sjín og yf­ir­lýs­ing­ar hans.

Þá herma nýj­ustu tíðindi, sem enn eru óstaðfest, að skriðdrek­ar á veg­um Wagner-hóps­ins, hafi nú farið inn fyr­ir borg­ar­mörk Rostov, fram­hjá vega­lok­un­um sem myndaðar voru með því að leggja stræt­is­vagna fyr­ir helstu vegi að borg­inni.

 Frétt­in hef­ur verið upp­færð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert