Allt útlit er fyrir að Wagner-málaliðahópurinn hafi nú Rostov á Don á valdi sínu. Myndskeið hafa nú birst á samfélagsmiðlum, sem sýna hermenn umkringja höfuðstöðvar suðurhers Rússlands, sem eru staðsettar í borginni.
Þá virðist sem að lítil sem engin mótspyrna hafi verið veitt þegar Wagner-hópurinn hélt inn í borgina.
Rostov þykir mjög mikilvæg fyrir hernað Rússa í Úkraínu, en þar hafa helstu stjórnstöðvar Rússahers fyrir innrásina verið staðsettar. Þá fer megnið af hergögnum og öðrum vistum til rússneska hersins í Úkraínu í gegnum Rostov.
Wagner-hópurinn sagðist hafa skotið niður rússneska herþyrlu við Rostov á Don fyrr í kvöld. Þá bárust fregnir af skærum á milli Wagner-liða og rússneska hersins í nágrenni borgarinnar.
Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-hópsins, sendi fyrr í kvöld frá sér yfirlýsingu, þar sem hann varaði flugmenn á vegum rússneska hersins við því að reyna loftárásir á hersveitir sínar, sem voru þá sagðar á leiðinni til Rostov.
Skömmu síðar sagði hann að hermenn sínir hefðu skotið niður herþyrlu sem hefði hafið skothríð á þá. Hann birti engar sannanir fyrir því, en eftirfarandi myndband virðist sýna Wagner-liða vera að skjóta upp í loftið. Þá heyrist í skotbardaga í bakgrunni.
Hér má svo sjá myndband, sem á að sýna herflutningabíla Wagner-liða fara í gegnum eftirlitsstöð á vegum rússneska hersins án þess að þeim sé veitt nokkur mótspyrna fyrr í kvöld.
Margt er enn á huldu um valdaránstilraun Prigósjíns, en fregnir fyrr í kvöld hermdu að brynvarin farartæki hefðu sést bæði í Rostov og í Moskvu. Þá virðist sem að rússneskar herþyrlur séu nú á sveimi yfir Rostov.
Rússnesk stjórnvöld hafa einnig gripið til þess ráðs að loka fyrir aðgang Rússa að fréttasíðu Google, Google News, auk þess sem lokað hefur verið fyrir alla pósta á VKontakte, rússnesku útgáfuna af Facebook, sem nefna Prigósjín og yfirlýsingar hans.
Þá herma nýjustu tíðindi, sem enn eru óstaðfest, að skriðdrekar á vegum Wagner-hópsins, hafi nú farið inn fyrir borgarmörk Rostov, framhjá vegalokunum sem myndaðar voru með því að leggja strætisvagna fyrir helstu vegi að borginni.
Fréttin hefur verið uppfærð.