Jevgení Viktoróvitsj Prígosjín, fjármagnari og innsti koppur í búri Wagner-sveitanna rússnesku, var náinn vinur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og jafnan nefndur „kokkur Pútíns“ sem sprottið er af því að eftir að hann losnaði úr fangelsi í kjölfar 13 ára dóms fyrir rán, líkamsárás og fjársvik tók hann að reka pylsuvagn í Pétursborg en fljótlega bættist matvöruverslun við reksturinn og að lokum fínir veitingastaðir. Hélt Pútín jafnan upp á afmæli sitt á veitingastöðum Prígosjíns sem varð kveikjan að kokksviðurnefninu.
Prígosjín tilheyrir hópi svokallaðra ólígarka, vafasamra kaupsýslumanna sem auðguðust á ýmsum viðskiptum í kjölfar falls Sovétríkjanna – viðskiptum sem þoldu dagsljósið misvel. Hann er fæddur 1. júní 1961 og stjórnar nú, auk Wagner-málaliðasveitanna, fjölda fyrirtækja, þar á meðal þremur sem talið er að hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.
Starfsemi kokksins er, eftir því sem fjölmiðlar á borð við The Insider, Der Spiegel og fleiri hafa fjallað um, nátengd rússneska varnarmálaráðuneytinu og leyniþjónustunni GRU.
Prígosjín neitaði lengi vel öllum tengslum við Wagner-sveitirnar en í september í fyrra játaði hann loks að hafa komið þeim á fót vorið 2014 til að styðja hersveitir Rússa í aðgerðum þeirra á Krímskaganum sem Rússar sölsuðu þá undir sig. Varð myndskeið nokkurt fleygt á samfélagsmiðlum sem sýndi Prígosjín ræða við fanga í rússnesku fangelsi og heita þeim frelsi ef þeir féllust á að starfa innan vébanda Wagner-sveitanna í sex mánuði.
Mörg fyrirtækja Prígosjíns hafa lengi sætt viðskiptabanni í Bandaríkjunum og Bretlandi og verið þar til rannsóknar auk þess sem bandaríska alríkislögreglan FBI hefur sett 250.000 dala verðlaun til höfuðs honum og skuli hver sá hljóta sem lagt getur fram upplýsingar er leiði til handtöku kokksins.
Hér einnig lesa um Prígosjín.